10. september 2020

Íslenskt - láttu það ganga

Bændasamtök Íslands eru þátttakandi í átakinu Íslenskt - Láttu það ganga, um aukna verðmætasköpun og að verja störf, sem hófst formlega í dag. Markmiðið er að efla vitund landsmanna um neysluhegðun og útskýra þau keðjuverkandi áhrif sem verða þegar við veljum innlenda þjónustu og skiptum við innlend fyrirtæki. 

Láttu það ganga


Við tilheyrum öll hringrás sem knýr hagkerfið okkar. Hugmyndin með átakinu er að „láta það ganga“;  þegar við veljum innlenda þjónustu, kaupum innlenda vöru og skiptum við innlend fyrirtæki höfum við keðjuverkandi áhrif. Við höldum atvinnustarfsemi gangandi, verndum störf og sköpum ný, aukum verðmætasköpun og stuðlum að efnahagslegum stöðugleika. Þannig látum við þetta allt saman ganga.

Þegar við nýtum kaupmátt okkar innanlands eykst hann. Þess vegna getur neysluhegðun okkar á endanum skilað sér til baka. Hverri neysluákvörðum fylgir ábyrgð — og við höfum val. Við biðjum Íslendinga, alla sem einn, að velja íslenskan iðnað, íslenska verslun, íslenska framleiðslu og íslenskt hugvit.

Því fleiri því áhrifaríkara

Öll fyrirtæki eru hvött til að taka virkan þátt, vekja viðskiptavini sína til umhugsunar og hvetja sem flesta til að velja innlenda þjónustu. Þeim mun fleiri sem taka þátt, þeim mun sýnilegra, víðtækara og áhrifaríkara verður átakið. 

Frekari upplýsingar um átakið og aðgengi að kynningarefni má nálgast á www.gjoridsvovel.is.

Bændasamtök Íslands ásamt Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samorku og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eru aðilar að verkefninu.

Tökum okkur saman og veljum íslenskt.
Og látum það svo ganga.