
Fellur frá frumvarpi um undanþágur samkeppnislaga
26.01.2023
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar frá síðastliðnu hausti var sett inn frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum. Frumvarpinu var ætlað að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu auk þess að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu.
Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við efnistök í umsögnum við frumvarpið sem byggði á niðurstöðum spretthópsins. Þar kom m.a. fram að Samkeppniseftirlitið telur þá undanþágu sem lögð var til í frumvarpsdrögunum mögulega fara gegn ákvæðum EES samningsins. Auk þess gangi sú undanþága mun lengra en viðgangist í nágrannalöndum og hætta sé á að hagsmunir kjötafurðastöðva fari ekki saman við hagsmuni bænda. Enn fremur benti Samkeppniseftirlitið á að núgildandi samkeppnislög heimili hagræðingu og því ekkert til fyrirstöðu að hægt sé að skapa grundvöll til hagræðingar á vettvangi kjötafurðastöðva samkvæmt núgildandi lögum. Alþýðusamband Íslands lagðist einnig gegn efnistökum frumvarpsins og tók undir umsögn Samkeppniseftirlitsins. Þá töldu Neytendasamtökin frumvarpið aðför að neytendum. Samtök fyrirtækja í landbúnaði og afurðastöðva í mjólkuriðnaði töldu aftur á móti að frumvarpið gengi of skammt.
Nýtt frumvarp í smíðum
Í ljósi þeirra athugasemda sem bárust í framangreindu samráðsferli þykir ljóst að ekki er tækt að leggja frumvarpið fram í núverandi mynd. Að því virtu hefur matvælaráðherra ákveðið að falla frá framlagningu frumvarpsins. Þess í stað verður hafin vinna í ráðuneytinu við annað frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Einkum verður horft til reglna ESB og Noregs á þessu sviði. Með nýju frumvarpi verður stefnt að því að styrkja stöðu framleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar. Tryggt verði að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og starfsemi en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Fyrirhugað er að leggja hið nýja frumvarp fram á haustþingi.