Beint í efni

Samþykktir Nautgripabænda BÍ

1. gr.

Nautgripabændur innan Bændasamtaka Íslands (BÍ) mynda nautgripadeild BÍ sem ber nafnið Nautgripabændur BÍ, skammstafað NautBÍ, sem er hluti af Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing deildarinnar er á skrifstofu Bændasamtaka Íslands.

2. gr.

Tilgangur deildar Nautgripabænda BÍ er að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni um hagsmunamál sín og vinna að hagsmunum þeirra.

3. gr.

3.1. Rétt til aðildar að deild Nautgripabænda BÍ hafa þeir einstaklingar sem eru fullgildir aðilar að Bændasamtökum Íslands skv. 3. gr. í samþykktum BÍ, stunda nautgriparækt og hafa til þess tilskilin leyfi stjórnvalda.

3.2. Deild Nautgripabænda BÍ ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en ekki einstakir félagsmenn.

3.3. Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. 3.1 og starfsmenn deildar Nautgripabænda BÍ innan BÍ geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir deildina.

3.4. Félagsaðild fellur niður uppfylli félagsmenn ekki öll skilyrði um félagsaðild, skv. 3.1

4. gr.

4.1. Búgreinaþing skal haldið árlega þar sem mótuð er stefna fyrir búgreinina næstu árin.

4.2. Búgreinaþing sitja með fullum réttindum þeir fulltrúar sem hafa verið kosnir af félagsmönnum deildarinnar. Einungis þeir félagsmenn sem uppfylla skilyrði greinar 3.1  eru kjörgengir.

4.3. Stjórn deildar Nautgripabænda BÍ ákvarðar fjölda fulltrúa sinnar deildar sem sitja Búgreinaþing með tillögu- og atkvæðisrétt. Tryggja þarf landfræðilega dreifingu. Kjördeildir skulu miðast við svæði neðangreindra félaga:

 1. Mjólkursamlag Kjalarnesþings
 2. Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi
 3. Félag Nautgripabænda við Breiðafjörð
 4. Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslu
 5. Nautgriparæktarfélag Vestur Húnavatnssýslu
 6. Félag kúabænda í Austur Húnavatnssýslu
 7. Félag kúabænda í Skagafirði
 8. Félag eyfirskra kúabænda
 9. Félag þingeyskra kúabænda
 10. Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum
 11. Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar
 12. Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
 13. Félag kúabænda á Suðurlandi

4.4. Skipting fulltrúa á milli kjördeilda fer eftir fjölda kjörgengra félagsmanna í hverri kjördeild. Miða skal við að hámarki 36 fulltrúa nautgripabænda inn á Búgreinaþing. Miðast félagatalið við 31. desember ár hvert.

4.5. Kjósa þarf jafn marga Búgreinaþingsfulltrúa og viðkomandi kjördeild hefur á Búgreinaþingi. Varamenn eru þeir sem á eftir koma í atkvæðamagni. Einnig er heimilt að skila auðu. Ef enginn bauð sig fram í kjördeildinni eða færri en fjöldi búgreinaþingsfulltrúa segir til um, verður að skrá inn nöfn félagsmanna í viðkomandi kjördeild.

4.6. Heimilt er að hafa kosningu fulltrúa inn á Búgreinaþing rafræna. Skal þá notast við viðurkennda rafræna auðkenningu.

4.7. Rafræn kosning til búgreinaþings skal standa í tvo sólarhringa.

4.8. Staðfestur fjöldi fulltrúa á Búgreinaþingi skal liggja fyrir eigi síðar en 20 dögum fyrir Búgreinaþing. Komi upp álitamál skal stjórn Nautgripabænda BÍ úrskurða um málið í samráði við stjórn BÍ. Kæra út af kosningu þingfulltrúa skal berast deild Nautgripabænda  BÍ eigi síðar en viku eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir.

4.9. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á Búgreinaþingi. Búgreinaþingið er opið til áheyrnar öllum félagsmönnum sbr. 3.1. Óski fleiri aðilar en hér er getið um, eftir að sitja þingið með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.

4.10. Á dagskrá Búgreinaþings skal vera:

 1. Skýrsla formanns deildar og sérfræðings Nautgripabænda BÍ.
 2. Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu, sem borist hafa með löglegum fyrirvara.
 3. Kosning stjórnar skv. 7. gr.
 4. Kosning aðalfulltrúa og varafulltrúa á Búnaðarþing samkvæmt lögum BÍ.
 5. Önnur mál.

4.11. Mál sem taka á til afgreiðslu á Búgreinaþingi Nautgripabænda BÍ skulu hafa borist stjórn deildarinnar eigi síðar en 14 dögum fyrir þingsetningu. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt Búgreinaþingsfulltrúum eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu þingsins. Búgreinaþing getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram ef meirihluti þingfulltrúa samþykkir.

4.12. Stjórn felur  formanni, stjórnarmanni og/eða sérfræðingi BÍ að halda utan um framkvæmd Búgreinaþings, þ.a.m. félagatal, kjörgengi- framboð- og kosningu fulltrúa, dagskrá þingsins og annað sem til fellur.

4.13. Þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir deildina skulu fá greiddan útlagðan kostnað vegna starfa sinna. 

4.14. Heimilt er að skipa uppstillinganefnd.

4.15. Búgreinaþing skal boða með minnst 30 daga fyrirvara. Búgreinaþing er löglegt sé löglega til þess boðað. Heimilt er að halda Búgreinaþing með aðstoð fjarfundabúnaðar.

5. gr.

Aukabúgreinaþing skal halda þyki stjórn Nautgripabænda BÍ sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar að minnsta kosti 1/3félagsmanna krefjast þess skriflega, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukabúgreinaþing skal haldið eigi síðar en 30 dögum eftir að krafan berst stjórn Nautgripabænda BÍ. Aukabúgreinaþing skal boða með minnst 10 daga fyrirvara og skulu gögn til fulltrúa berast með fundarboðinu. Um rétt til fundarsetu á aukaþingum gilda sömu reglur og á Búgreinaþingi.

6. gr.

6.1. Stjórn Nautgripabænda BÍ skal skipuð fjórum einstaklingum auk formanns, sem allir skulu kosnir á Búgreinaþingi, formaður til tveggja ára en aðrir stjórnarmenn til eins árs. Fyrst skal kjósa formann, næst 4 fulltrúa í stjórn og loks 3 varamenn. Kosningar skulu vera leynilegar. Stjórn kýs sér varaformann og ritara.

Ef að formaður hættir störfum á tímabilinu, skal varaformaður sitja sem formaður fram að næsta Búgreinaþingi. Þá skal kjósa nýjan formann á næsta Búgreinaþingi eftir að hann hefur látið af störfum, skal formaður kjörinn til eins starfsárs ef meira en eitt starfsár er eftir af kjörtímabili fráfarandi formanns.

6.2. Formaður tekur jafnframt sæti í Búgreinaráði BÍ.

6.3. Kjörinn formaður og stjórn deildar eru sjálfkjörnir fulltrúar deildarinnar á Búnaðarþingi. Aðrir Búnaðarþingsfulltrúar skulu kjörnir samkvæmt þingsköpum deildarinnar. Að lokinni kosningu aðalmanna skal kjósa varamenn.

6.4. Formaður Nautgripabænda BÍ eða annar stjórnarmaður skal bjóða  sig fram í stjórn BÍ.

6.5. Löglega kosin stjórn deildarinnar er jafnframt stjórn Landssambands kúabænda, LK.

7. gr.

7.1. Hlutverk stjórnar Nautgripabænda BÍ er að vinna að hagsmunum nautgripabænda innan BÍ í gegnum búgreinadeild, annast málefni milli félagsfunda og sjá um að þau séu jafnan í sem bestu horfi.

7.2. Undirskriftir þriggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda deildina.

8. gr.

8.1.
 Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi. Stjórn er heimilt að halda fundi með aðstoð fjarfundabúnaðar.

8.2. Stjórn Nautgripabænda BÍ skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni með tölvupósti og skal stjórn sjá til þess að þau afrit séu varðveitt með tryggilegum hætti. Skulu samþykktar fundargerðir birtar á vefsvæði BÍ svo fljótt sem unnt er. Stjórn er heimilt að skrá einstaka liði í fundargerð eða fundargerðir, sé þess þörf í trúnaðarbók og birta ekki á heimasíðu BÍ.

9. gr. 

Samþykktum þessum má aðeins breyta á Búgreinaþingi eða Aukabúgreinaþingi, sem boðað er til þess sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar félagsmönnum eigi síðar en 14 dögum fyrir Búgreinaþing. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti fundarmanna greiði þeim atkvæði.

10. gr.

Leggist starfsemi Nautgripabænda BÍ niður skulu eigur þess ganga til BÍ.

11. gr.

Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með 24. janúar 2023.