Beint í efni

Alls voru 26 ályktanir samþykktar á Búgreinaþingi Nautgripabænda BÍ, sem haldið var í Reykjavík mánudaginn 12. febrúar og þriðjudaginn 13. febrúar 2024.
Hér fyrir neðan má finna samþykktar ályktanir DeildarfundsNautgripabænda BÍ 2024

  1. Framkvæmd kosninga

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ að leggja fyrir Búnaðarþing 2024 reglugerð um kjörfundi og meðferð kjörgagna vegna kosninga á deildarfundi og Búnaðarþing.

Rökstuðningur: Það er mat deildarinnar að þessi mál séu ekki í nægilega föstu formi og skýra þarf því umgjörð kosninga enn frekar. Vinnu við nefndarstörf og setu deildarfunda og Búnaðarþings fylgir ábyrgð. Fjöldi innsendra tillagna á deildarfund greinarinnar 2024 sýnir það að félagsmenn hafa áhyggjur af framkvæmd og formi kosninga. Tryggja þarf lengri frest til framboða til setu á deildarfundi. Kjörskrá eða félagatal þarf að vera opið félagsmönnum því félagsmenn þurfa að kjósa fulltrúa á deildarfundi og Búnaðarþing, ásamt varamönnum, en það getur verið erfitt ef ekki er vitað hverjir eru kjörgengir. Félagsmönnum verður að vera kleift að kynna sér hverjir gefa kost á sér áður en þeir skrá sig inn á kosningavefinn sjálfan. Að kosningu lokinni á að upplýsa félagsmenn um kjörsókn, hverjir voru kosnir sem og varamenn, fjölda gildra atkvæða, sem og ógildra. Þetta er einnig liður í því að efla tengingu samtakanna við grasrótina. Komi til breytinga á fyrirkomulagi deildarfunda og Búnaðarþings á Búnaðarþingi 2024 þarf reglugerðin að taka tillit til þess þegar hún er lögð fyrir Búnaðarþing, það er ef að fyrirkomulag er óbreytt annars vegar og hins vegar ef að breytingar verða á fyrirkomulagi. Því þarf að taka afstöðu til breytinga á fyrirkomulagi áður en þessi reglugerð er borin upp, þannig að ekki líði eitt ár þar til reglugerðin taki gildi.


2. Rafrænir félagsfundir

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ að rafrænir félagsfundir verði teknir upp og verði gerðir aðgengilegir inn á bændatorgi Bændasamtaka Íslands.

Rökstuðningur: Mikilvægur þáttur í eflingu félagsstarfsins er upplýsingaflæði til félagsmanna. Með tillögunni er þeim félagsmönnum, sem einhverra hluta vegna geta ekki setið fundina á tilsettum tíma, gert kleift að fylgjast með umræðum og efni funda.


3. Kostnaður fulltrúa við fundarsetu

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að fulltrúar á deildarfundum og Búnaðarþingi fá greiddan allan útlagðan kostnað vegna fundarsetu.

Rökstuðningur: Óneitanlega fylgir því aukinn kostnaður fyrir fulltrúa deildanna að sitja deildarfundi og Búnaðarþing. Það má ekki koma upp sú staða að félagsmenn Bændasamtakanna veigri sér við því að gefa kost á sér til starfa fyrir samtökin vegna kostnaðar sem hlýst af þeirri vinnu.


4. Upplýsingaflæði til félagsmanna og annarra

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórna Bí og NautBÍ að gera vinnu samtakanna sýnilegri, auka upplýsingaflæði til félagsmanna og vera duglegri við að koma sér og bændum á framfæri við fjölmiðla.

Rökstuðningur: Bændasamtök Íslands er ekkert án sinna félagsmanna og þarf því tenging samtakanna við félagsmenn að vera sterk. Félagsmenn þurfa að fá þá upplifun að þeir tilheyri samtökunum og sjái hag sinn í því að greiða í þau félagsgjöld. Hægt er að nýta bændatorgið mun meira til þess að koma með fréttir af starfsemi samtakanna til félagsmanna, að hverju er verið að vinna, hvernig gengur sú vinna, kynning á nýjum starfsmönnum o.s.frv..


H

5. Tenging við grasrótina

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar NautBÍ að haldinn verði að lágmarki einn fundur á fjögurra mánaða fresti með félagsmönnum deildarinnar. Á fundinum yrði farið yfir þau mál sem eru efst á baugi er varða greinina þá stundina.

Rökstuðningur: Tenging stjórnar við grasrótina er mikilvæg og er mikilvæg til þess að efla starf deildarinnar.


6. Kjörsókn

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 lýsir yfir þungum áhyggjum af slakri kjörsókn innan stærstu deilda Bændasamtaka Íslands.

Rökstuðningur: Einungis var 26% kjörsókn félagsmanna NautBÍ og rúmlega 22% hjá sauðfjárbændum í kosningu fulltrúa inn á deildarfundi. Fulltrúar og stjórnir deildanna verða að hafa óumdeilanlegt umboð félagsmanna til sinna starfa.


7. Nefndarstörf á deildarfundum búgreina

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að verklagsreglur um nefndarstörf sem starfa við undirbúning deildarfunda verði yfirfarnar og sett meiri formfesta á starfið.

Rökstuðningur: Nefndir fyrir deildarfund fá skamman tíma til að ljúka störfum fyrir fundinn. Æskilegt er að allar deildir hefðu með sér starfsmann BÍ a.m.k. á einn fund til að aðstoða við fundargerð, leiðbeina um meðferð mála, og tryggja og leiðbeina að nefndarmenn viti að þeir geti sótt sér aðstoð frá utanaðkomandi sérfræðingum og álitsgjöfum.


8. Deildarfundir búgreina og Búnaðarþing sameinað

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ að sameina deildarfundi búgreina og Búnaðarþing í einn sameiginlegan viðburð.

Rökstuðningur: Nautgripabændur telja það eðlilegt að næsta skref í sameiningu nýrra og öflugra Bændasamtaka að sameina deildarfundi búgreina og Búnaðarþing í eitt stærra og öflugra þing. Með því má spara fundarkostnað, bæði í formi salaleigu en einnig ferðakostnað fulltrúa. Auk þess myndi tími starfsfólks nýtast betur á ársgrundvelli, þar sem ekki þarf að skipuleggja tvö þing. Á fyrsta degi mætti halda sameiginlega setningarathöfn, fara yfir sameiginleg málefni allra deilda ásamt því að tími gæfist fyrir nefndarstarf. Á degi tvö yrðu deildarfundir haldnir en á þeim fundum eru einungis tekin fyrir sérhæfð málefni deildanna. Á degi þrjú væri Búnaðarþing síðan haldið. Í lok þinganna væri hægt að efna til sameiginlegra árshátíðar með tilheyrandi skemmtun. Fulltrúar inn á Búnaðarþing yrðu kosnir fyrir þingið, á sambærilegan hátt og stærri deildir samtakanna kjósa fulltrúa sína inn á deildarfundi. Þeir fulltrúar sem sitja bæði þingin starfa þannig í tveimur nefndum samhliða fyrir þingið.


9. Förgun á dýrahræjum

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ að fylgja eftir tillögu frá 2023 um förgun á dýrahræjum.

Rökstuðningur: Misbrestur er á að til séu farvegir fyrir förgun dýrahræa í landinu eins og lög kveða á um.


10. Teymisstjóri mjólkurgæða

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 samþykkir að stjórn Naut BÍ beiti sér fyrir að samið verði við óháðan aðila sem bændur geti leitað til um ráðgjöf og aðstoð til að bregðast við þegar upp koma tilvik þar sem mjólkurgæði falla.

Rökstuðningur: Þegar mjólk fellur þarf að bregðast strax við. Fara í gegnum hjörð ef við á, fara í gegnum búnað ef við á og taka auka sýni strax og hægt er til að fá úr því skorið hvort um skot hafi verið að ræða eða stærra vandamál. Það er mikilvægt að bændur geti leitað til óháðs aðila til að skapa gagnkvæmt traust við leit að orsök vandans. Mörg okkar hafa lent í því að þjónustuaðili mjaltabúnaðar bendi á hjörðina, dýralæknirinn á aðbúnað eða umgengni og mjólkureftirlit á búnaðinn. Við tökum það nærri okkur þegar svona atvik koma upp og viljum greina þau fljótt og örugglega án þess að hver bendi á annan. Það er ekki við neinn að sakast og þetta er ekki keppni um að finna annann sökudólg heldur en meinta ástæðu fyrir atburðinum.


11. Verðlagsgrundvöllur

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 brýnir fyrir stjórn Naut BÍ að leggja áherslu á að flýta vinnu við nýjan verðlagsgrundvöll mjólkur og kjöts eins og kostur er.


12. Nýtt erfðaefni í mjólkurkúastofninn 

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar NautBÍ kanni áhuga bænda á innflutningi á nýju mjólkurkúakyni


13. Heimavinnsla afurða og heimaslátrun

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar samþykkir að beina því til stjórnar BÍ að beita sér fyrir því við þar til bær yfirvöld, að regluverk er snýr að heimavinnslu afurða og heimaslátrun, verði einfaldað.

Rökstuðningur: Mikilvægt er að liðka til og einfalda reglugerðir sem snúa að heimavinnslu afurða og heimaslátrun, til að bændur geti í meiri mæli farið að vinna sínar eigin vörur og selja ef þeir svo kjósa.


14. Umboðsmaður Alþingis

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 samþykkir að beina því til stjórnar BÍ að athuga hvort Umboðsmaður Alþingis geti tekið til skoðunar hvort ríkisstjórnin brjóti búnaðarlög/búvörulög með því að fara ekki eftir búvörusamningum. Að öðrum kosti að fá úrskurð dómstóla.

Rökstuðningur: Í fyrstu grein I. Kafla Búvörulaga, þar sem talin er upp tilgangur laganna segir í málsgrein d. „að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta. Nú má ljóst vera m.a. af vinnu ráðuneytisstjórahóps, á vegum Matvælaráðuneytisins, sem á haustdögum skilaði niðurstöðum sínum, en þar kemur framað rekstur kúabúa hafi verið erfiður árið 2022 og ólíklegt að hann sé betri 2023. Þetta kemur einnig fram í rekstarverkefni RML sem hefur unnið greiningu á rekstri um 130 kúabúa á landinu. Af þessu, ásamt almennri umræðu í landinu og umræðum á Alþingi, má sjá að vandinn hefur verið viðurkenndur. Þrátt fyrir þetta neitar ríkið að koma með meiri fjármuni í búvörusamninga við síðustu endurskoðun sem undirrituð var í janúar sl. til að uppfylla markmið laganna, sem viðurkennt hefur verið að er ekki að nást. Í fyrrnefndri endurskoðun má einnig sjá að tekið er af flestum liðum samningsins og fært í starfsemi leiðbeiningarþjónustu, sem einnig er skilgreint samkv. markmiðum laganna samkv. 2. gr. málsgr. b. „tryggja að bændum standi til boða leiðbeiningarþjónustu og skýrsluhaldshugbúnaður til að styðja við framgang markmiða samnings skv. 3. gr.“. Það skýtur mjög skökku við að þetta sé gert í kjölfar þess að almennt hefur verið viðurkennt að kjör nautgripabænda hafa versnað mjög á undanförnum árum.


15. Réttindastaða maka í nautgriparækt

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 samþykkir að beina því til stjórnar Bí að fylgja því eftir að verklagsreglum er lúta að breytingu á skráningu rekstraraðila, þegar maki sem skráður er fyrir búrekstri fellur frá, verði einfölduð.

Rökstuðningur: Í ljósi máls sem kom upp á síðasta ári og varpaði ljósi á slaka lagalega stöðu maka í rekstri búa við andlát þess sem skráður er fyrir búinu, þarf að gera bragabót. Beina þarf því til MAST að tryggja að rekstur búa fari sjálfkrafa yfir á maka. Í flestum tilvikum eru makar alveg jafn mikið í rekstri kúabúa þó að þeir séu ekki sérstaklega skráðir sem slíkir.


16. Samstarf stjórnvalda og BÍ

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 samþykkir að stjórn Bí komi því skýrt til skila við stjórnvöld að það sé mikilvægt þegar málefni landbúnaðarins eru til umræðu, að þá séu Bændasamtökin höfð með í ráðum, með tilliti til reglugerðabreytinga, lagasetningar og gerð samninga sem lúta að landbúnaði.

Rökstuðningur: Mikilvægt er að stjórnvöld nýti sér þá sérfræðiþekkingu sem til er innan samtakanna og viðurkenni Bændasamtök Íslands sem talsmann landbúnaðarins í heild sinni.


17. Bætt lánakjör til bænda

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 samþykkir að stjórn Bí hefji samtal við stjórnvöld um hvaða leiðir skuli fara og hvernig aðkoma ríkisins skuli vera að því að tryggja hagstæðari lánakjör til landbúnaðarins í heild.

Rökstuðningur: Mikill fjármagnskostnaður hefur verið einn af stóru þáttunum í því að afkoma í landbúnaði hefur verið óásættanleg á síðustu árum. Fjárfestingarþörfin hefur einnig aukist á síðustu árum með aukinni hagræðingarkröfu. Þá eru hagstæðari lánakjör ein af forsendum þess að nýliðun/kynslóðaskipti geta orðið. Aðgengi að hagkvæmum lánakjörum eykur samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar.


17. Áherslumál við gerð búvörusamninga

Deildarfundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ og stjórnar nautgripabænda BÍ að við gerð nýrra búvörusamninga verði eftirfarandi atriði helstu áherslumál nautgripabænda.

•  Fjármagn sem sett verður í samningana verði stóraukið.

•  Tollvernd verði aukin til muna.

•  Auka þarf verulega stuðning við nautakjötsframleiðslu í gegnum sláturálag.

•  Hagræðingarkrafan sem verið hefur í búvörusamingum síðan 2005 verði tekin út.

Rökstuðningur: Afkoma bænda er slæm um þessar mundir. Rekstrargögn RML sýna að rekstarafkoma í mjólkurframleiðslu versnar ár frá ári og var taprekstur 2022 18,9 kr/lítra. Í nautakjötsframleiðslu hefur rekstarafkoma verið neikvæð síðustu ár. Undanfarin ár hefur ríkið komið á móts við erfiða stöðu bænda með viðbótar fjármagni. Úthlutun þess fjármagns hefur orðið til þess að óeining hefur myndast meðal bænda þar sem ríkið hefur búið til allskonar hópa meðal bænda sem ýmist fá fjármagn eða sitja eftir með sárt ennið og fá lítið eða ekki neitt.Það væri mun skilvirkara að auka verulega við stuðning til bænda gegnum búvörusamninga heldur en að vera alltaf að bregðast við slæmri stöðu með auka greiðslum þegar allt er komið í óefni. Eitt mesta hagsmunamál íslensks landbúnaðar er að tollamálum verði komið í viðunandi horf. Tollvernd íslensks landbúnaðar hefur frá aldamótum gefið verulega eftir og alls ekki fylgt verðlagi í landinu. Það þarf því að auka við tollverndina og tryggja svo að hún fylgi verðlagi svo hún rýrni ekki með tímanum eins og gerst hefur síðustu áratugi.Eins og staðan er í nautakjötsframleiðslu í dag eru bændur að borga með sinni framleiðslu. Samkvæmt skýrslu RML um rekstur nautgripabænda greiddu nautakjötsframleiðendur 311 kr með hverju framleiddu kg af nautakjöti árið 2022. Ef það er ætlun stjórnvalda að íslenskum neytendum standi til boða innlent nautakjöt þarf að bregðast við þeim viðvarandi taprekstri sem hefur verið hjá nautgripabændum með auknum stuðningi við greinina. Nú þegar staða bænda er heilt yfir slæm er eðlilegt að sú hagræðingarkrafa (Vatnshallinn) sem sett var á bændur með búvörusamningum 2005 og hefur verið haldið inni síðan þá, verði felld út. Það að stuðningsviðmiðun hafi verið fryst frá árinu 2004/2005 hefur haft veruleg og neikvæð áhrif á rekstrarforsendur í mjólkurframleiðslu þar sem tekjur voru ekki tryggðar á móti. Hefja þarf leiðréttingu sem fyrst til að tryggja að þetta fái sérstaka og frekari umfjöllun og niðurstöðu í nýjum búvörusamningi.


18. Rýrnun opinbers stuðnings á framleidda lítra af mjólk

Deildarfundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 leggur til við stjórn BÍ og stjórn Nautgripabænda BÍ að tryggt verði að greiðslur sem greiddar eru út á lítra af mjólk haldist óbreyttar á hvern lítra þótt heildagreiðslumark breytist milli ára.

Rökstuðningur: Frá aldamótum hafa íslenskir mjólkurframleiðendur brugðist við aukinni eftirspurn mjólkur með auknum framförum í afköstum og framleitt mjólk upp í heildargreiðslumark 2023 var 149 milljónir lítra en var 104 milljónir lítra árið 2001. Á sama tíma hafa heildargreiðslur á greiðslumark og greiðslur á framleiddan líter rýrnað um tæp 59% á raunvirði.


19. Nýliðunar og fjárfestingarstuðningur í nautgriparækt

Deildarfundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 beinir því til stjórnar BÍ og stjórnar Nautgripabænda BÍ að við gerð næstu búvörusamninga verði verulega aukið við það fjármagn sem fer í nýliðunar- og fjárfestingastuðning. Þá verði þessir fjármunir ekki teknir af öðrum liðum heldur verði um aukið fjármagn í samningana að ræða. Eins verði um að ræða fast hlutfall af fjárfestingu en ekki ákveðinn pottur sem deilist niður eftir fjölda umsækjanda.

Rökstuðningur: Í því starfsumhverfi sem landbúnaðurinn er í dag eru beinir styrkir við nýliða og vegna framkvæmda ein mesta kjarabót til þeirra sem þá fá. Með þeim hætti hafa bændur ákveðið öryggi við sína áætlanagerð áður en farið er í stórar fjárfestingar og fjármagnanir á þeim.


20. Athugasemd til stjórnvalda

Deildarfundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir þá mismunum sem viðhöfð var við framkvæmd greiðslna úr þeim potti sem stjórnvöld úthlutuðu í lok síðasta árs.

Rökstuðningur: Með því að greiða þessa fjármuni með þeim hætti sem gert var, var ákveðinn hópur bænda sem fékk ekkert vegna þess að þeir féllu ekki innan ákveðna hópa, þrátt fyrir að vera í slæmri skuldastöðu. Dæmi um hópa sem lentu utan viðmiðunarhópa eru nautgripabændur sem ekki halda holdakýr og ungir bændur sem tóku við rekstri frá 2012 (þegar nýliðunarstuðningur var tekinn upp) til 2016.


21. Starfsskilyrði í nautgriparækt og framtíð framleiðslustýringarkerfis í mjólkurframleiðslu

Deildarfundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12.-13. febrúar 2024 skorar á stjórn Nautgripabænda BÍ að hefja vinnu við undirbúning nýs samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt. Sem lið í þeim undirbúningi verði hafin vinna við að meta hvernig núverandi samningur hefur reynst bændum, meta tilgang og árangur einstakra liða búvörusamningsins, verðlagningar kerfisins og tollverndar. Jafnframt skal skoða með hvaða hætti má lækka kostnað við það framleiðslustýringarkerfi sem við munum búa við.

Rökstuðningur: Það væri mjög gott að stjórn Naut BÍ léti rýna núverandi samning lið fyrir lið og sjá hvort hann hafi skilað bændum tilætluðum árangri og hvort hægt væri að nýta einstaka liði betur í komandi búvörusamningi. Einnig þarf að rýna með hvaða hætti er hægt að gera framleiðslustýringarkerfi sem kostar bændur ekki eins mikið og núverandi kerfi.


22. Eldi nautkálfa af íslenska mjólkurkúakyninu

Deildarfundur nautgripabænda innan Bændasamtaka Íslands, haldinn í Reykjavík 12. og 13. febrúar 2024, skorar á stjórn Nautgripabænda BÍ að hefja viðræður við stjórnvöld um að styrkja frekar þá bændur sem framleiða nautakjöt með eldi á nautkálfum undan íslenskum mjólkurkúm.

Rökstuðningur: Það er óskiljanlegt að helsta loftlags-, og ímyndarmál íslenskra nautgripabænda, sem eldi nautkálfa af mjólkurkúakyni er, sé flokkaður eins og annars flokks búskapur í samanburði við þá sem halda ýmist holda-, eða mjólkurkýr. Nýjasta dæmið er úthlutun fjármuna eftir vinnu ráðuneytisstjórahópsins. Þar fengu aðeins þeir úthlutun sem eyrnamerkt var kjötframleiðslu þeirra sem héldu holdakýr. Enn og aftur var mismunað innan hóps framleiðanda nautakjöts og það er með öllu ótækt.


23. Tollvernd

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 ítrekar mikilvægi þess að tollvernd fylgi verðlagi. Tollvernd er órjúfanlegur hluti af starfskjörum og starfsöryggi bænda.

Rökstuðningur: Augljóst er að tollverndin virkar ekki eins og hún er núna. Krónuhluti tollverndar í landbúnaði hefur ekki verið uppfærður síðan 1995 og er því ljóst að verðbólga hefur étið upp mikið af þeirri tollvernd sem þá var sett á. BÍ þarf að beita sér fyrir því að tollverndin virki sem skyldi.


24. Úthlutun tollkvóta

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 krefst þess að stjórnvöld endurskoði framkvæmd úthlutunar tollkvóta.

Rökstuðningur: Útboð tollkvóta í lok árs 2023 sýndi að „Hollenska leiðin“ virkar ekki sem skyldi hér á landi þar sem innflutningsaðilar eru einfaldlega of fáir. Þar sem einn aðili hefur um 40% hlutdeild af útboðinu má færa rök fyrir því að  sá aðili geti haft ráðandi áhrif á verðútkomu útboðsins sem endaði í einni krónu á kg. Hollenska útboðsleiðin byggir á þeim forsendum að samkeppni sé um tollkvótann sem svo ákvarðar verðið hverju sinni, en í þeirri fákeppni sem hér ríkir virkar kerfið ekki.

Lágt verð tollkvóta getur haft mikil áhrif á birgðastöðu nautakjöts hér á landi. Haldi útboðin áfram á sömu leið, má leiða líkur að því að offramboð verði á nautakjöti sem mun leiða til hruns á afurðarverði. Til að sporna við þessu mætti til að mynda setja lágmarksverð á tollkvóta. Við þær aðstæður myndi eftirspurn út á markaði fremur stjórna innflutningi á nautakjöti heldur en kerfislegir hvatar til innflutnings. Í raun má líta svo á að engin eftirspurn sé á þessum tollkvótum né þá þessu kjöti, ef litið er til þess verðs sem tollkvótarnir fara á (1 kr/kg). Ef að hér á að vera nautakjötsframleiðsla þá þarf öfluga tollvernd . Kerfið þarf að virkar miðað við okkar aðstæður og þjóna okkar markaði.


25. Tollasamningur

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 krefst þess að samningi Íslands og Evrópusambandsins með landbúnaðarvörur frá 2015 verði tafarlaust sagt upp.

Rökstuðningur: Forsendur samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, sem áritaður var 17. september 2015 og samþykktur á Alþingi 13. september 2016 hafa breyst og ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum bændum í óhag. Þetta fékkt staðfest með úttekt utanríkisráðuneytisins í desember 2020: „Landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins – úttekt á hagsmunum Íslands“. Ljóst er að samningurinn hallar mjög á íslenska bændur enda er magn innan tollkvóta hingað til lands margfalt per íbúa samanborið við magn innan tollkvóta til útflutnings per íbúa innan ESB. Það er ótrúlegt að íslensk stjórnvöld hafi gert svo óhagstæðan samning fyrir Íslands hönd.

Markaðshlutdeild innflutnings hefur stóraukist undanfarinn áratug. Þannig hefur markaðshlutdeild innflutts nautakjöts farið úr 9% árið 2013 í 23% árið 2022 (innflutningur reiknaður til ígildis kjöts með beini) og markaðshlutdeild innflutts osts farið úr 3,8% árið 2013 í 11,1% árið 2022. Á sama tíma hefur markaðurinn stækkað mjög með tilkomu aukins ferðamannafjölda og mannfjöldaþróunar. Hefur þessari stækkun markaðar því að stórum hluta verið svarað með auknum innflutningi í stað aukinnar innlendrar framleiðslu.

Stærstu sóknarfæri sem sköpuð voru fyrir íslenskar afurðir á Evrópumarkað voru fyrir skyr og lambakjöt. Hins vegar hefur ekki tekist að nýta þau sóknarfæri síðan samningurinn tók gildi og ekki er útlit fyrir að breyting verði þar á. Langstærsti markaður fyrir íslenskt lambakjöt í Evrópu hefur verið Bretlandsmarkaður og með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar.

Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því við ESB í lok árs 2020 að tollasamningur Íslands og ESB um landbúnaðarvörur verði endurskoðaður en síðan hefur lítið heyrst. Því er íslenskum stjórnvöldum sá einn kostur að segja upp núverandi samningi.


26. Tollamál

Deildafundur Nautgripabænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 13. febrúar 2024 krefst þess að tollasamningar með landbúnaðarvörur verði endurskoðaðir á árinu 2024 með það að markmiði að bæta hag neytenda, ríkissjóðs, bænda og um leið tryggja fæðuöryggi íslenskrar þjóðar til framtíðar.

Rökstuðningur: Neytendur vilja örugg matvæli, gæði og gott verð. Það er skoðunar vert hvort lækkun/rýrnun tolla á mjólkur- og kjötvörur og aukinn innflutningur hafi haft jákvæð áhrif á eitthvert þessara atriða. Ríkissjóður verður af tekjum af tollum og vert er skoðunar hvort aukinn innflutningur auki kostnað á fleiri stöðum, s.s. í heilbrigðiskerfinu. Einnig hefur Ríkissjóður lagt fram aukin framlög til bænda vegna lakrar afkomu sem nánar verður rakið hér á eftir. Bændur, kjör mjólkur- og nautakjötsframleiðenda hafa dregist saman undanfarin ár ólíkt öðrum stéttum eins og fram kom í niðurstöðum svonefnds ráðuneytisstjórahóps í lok árs 2023. Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins hefur einnig framkvæmt rekstrargreiningu á ársreikningum kúabúa fyrir árin 2017 til 2022. Þar kemur m.a. fram að kúabændur hafa í auknu mæli þurft að leita út fyrir bú sín eftir tekjum vegna versnandi afkomu og hefur kúabúum fækkað ár frá ári. Tollar á innfluttar vörur, í beinni samkeppni við afurðir kúabúa, hafa verið fluttar inn bæði innan tollkvóta og með fullum tollum. Magn innan tollkvóta hefur verið að aukast mikið undan farin ár, dæmi um sjöföldun magns ákveðinna vara, auk þess sem breytingar á úthlutuarreglum kvóta hafa orðið til að draga úr vægi tollana eins og nýlegt dæmi um úthlutun alls magns innflutts nautakjöts innan tollkvóta á fyrri helmingi ársins 2024, sem úthlutast á 1 kr/kg. Tollur á vörum utan tollkvóta hefur einnig rýrnað mjög enda samið um fasta upphæð á hverja magneiningu og upphæðin ekki verðlagstengd. Dæmi er um samninga þar sem samið var um fasta upphæð fyrir 30 árum sem ekki hafa verið endurskoðaðar nema í einhverjum tilfellum til lækkunar. Sé vilji til að viðhalda framleiðslu á mjólk og nautagripakjöti í landinu er nauðsynlegt að tollar á mjólkurvörum og nautgripakjöti verði endurskoðaðir á árinu 2024. Fæðuöryggi þjóðarinnar til framtíðar er að veði.