
Alls voru 36 ályktanir voru samþykktar á Búgreinaþingi Nautgripabænda BÍ, sem haldið var í Reykjavík miðvikudaginn 22. febrúar og fimmtudaginn 23. febrúar 2023.
Hér fyrir neðan má finna samþykktar ályktanir Búgreinaþings Nautgripabænda BÍ 2023
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til samninganefndar BÍ að við endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verði stuðningur við greinina aukinn með nýju fjármagni og tollvernd á landbúnaðarvörum verði efld til muna.
Rökstuðningur: Frá aldamótum hafa íslenskir mjólkurframleiðendur brugðist við aukinni eftirspurn mjólkur með auknum framförum í afköstum og framleitt mjólk upp í heildargreiðslumark sem er í dag 149 milljónir lítra en var 100 milljónir lítra árið 2000. Á sama tíma hefur heildar ríkisstuðningur við nautgriparæktina lækkað um þrjá milljarða. Stuðningsgreiðslur á hvern lítra hafa þannig lækkað úr 103 kr./ltr. niður í 49,8 kr./ltr. sé gert ráð fyrir því að heildarstuðningur nautgriparæktarinnar deilist allur á greiðslumark hvers árs. Á sama tíma hefur nautakjötsframleiðsla einnig aukist til muna. Í lok árs 2004 voru 3.592 tonn framleidd af nautgripakjöti en í lok árs 2022 var magnið 4.948 tonn. Í skýrslu utanríkisráðherra (þingskjal 1174-348 frá 151. löggjafarþingi) um tollasamning Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur segir að hlutfall neyslu á innfluttu nautakjöti hafi farið úr 2,8% árið 2017 upp í 15,7% árið 2020. https://www.althingi.is/altext/pdf/151/s/1174.pdf
Auk þess að framleiða meira hafa á þessum tíma kröfur um velferð og aðbúnað aukist sem og kröfur til loftlags- og umhverfismála. Ljóst er því að raunverulegur stuðningur á hvern lítra mjólkur og hvert kíló nautgripakjöts er enn lægri en tölurnar hér að ofan gefa til kynna. Óraunhæft er að ætlast til þess að mjólkur- og nautakjötsframleiðendur séu sífellt tilbúnir að auka við framleiðslu sína til að svara eftirspurn markaðarins á sama tíma og stuðningurinn bæði þynnist út og lækkar ár frá ári og kröfur um aukið tillit til umhverfisvænni landbúnaðar verða sífellt meiri.

Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til Bændasamtaka Íslands að við endurskoðun búvörusamnings í nautgriparækt verði þróunarfé nautgriparæktar aukið í 50 milljónir með auknu fjármagni í samninginn.
Rökstuðningur: Mikil eftirspurn er eftir fjármagni til rannsóknarverkefna í nautgriparækt um þessar mundir og þá sér í lagi til verkefna tengdum loftslagsmálum. Í dag eru 15 milljónir eyrnamerktar til þessa málaflokks í rammasamningi sem er hvergi nærri nóg. Einnig hafa verið teknar 30 milljónir af öðrum liðum síðustu ár en ekki dugað til. Fast þróunarfé í nautgriparækt hefur verið of lág upphæð undanfarin ár og þegar bætt hefur verið við er það aðeins til eins árs í senn og því erfiðara að sækja um fyrir verkefni sem ná yfir lengri tíma.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 kallar eftir auknum stuðningi vegna fjárfestinga í framkvæmdum sem lúta að bættum aðbúnaði, bættri geymslu og nýtingu búfjáráburðar, sem og umhverfisvænni lausnum í fóðuröflun, fóðurverkun og geymslu.
Rökstuðningur: Við viljum gera vel í okkar landbúnaði. Kröfur og tækni í landbúnaði taka breytingum og við því þarf að bregðast. Mikil vitund hefur vaknað innan greinarinnar að stuðla að bættum aðbúnaði dýra og starfsfólks og bættri nýtingu á öllum „afurðum“ sem falla frá dýrunum. Krafa um aukna sjálfbærni og skilvirkni leiðir líka til þess að sú tækni og þróun sem viðgengst í gær er úrelt í dag og því þarf að bregðast við. Mikilvægt er því að Íslendingar verði í fararbroddi á heimsmælikvarða hvað það varðar að vera með sjálfbæran og skilvirkan landbúnað.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 í Reykjavík leggur til við stjórn Búgreinadeildar nautgripabænda BÍ að við gerð næsta búvörusamnings skuli áfram vera einn sameiginlegur samningur fyrir alla nautgripabændur. Samningurinn skal taka tillit til allra þriggja stoða nautgripabænda: mjólkurframleiðslu, nautakjötsframleiðslu og holdakúabúskapar.

Rökstuðningur: Örlað hefur á sundrung innan greinarinnar sem mögulega má rekja til óskýrrar skilgreiningar þar sem mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðslu hefur verið stillt upp sem andstæðum pólum. Með skýrri skilgreiningu má auka samtakamátt greinarinnar og skerpa áherslur öllum félagsmönnum til hagsbóta. Nautgriparækt á Íslandi byggir á þremur stoðum: Mjólkurframleiðslu, nautakjötsframleiðslu og holdakúabúskap. Þessar þrjár skilgreiningar má rökstyðja með: nautakjötsframleiðsla er hluti af mjólkurframleiðslu, búskapur með holdakýr er ekki mjólkurframleiðsla en nautakjötsframleiðsla er hluti af búskap með holdakýr.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til samninganefndar Bændasamtaka Íslands að við endurskoðun búvörusamnings um starfsskilyrði nautgriparæktar verði stærstur hluti nýs fjármagns settur á framleiðslutengdar greiðslur í kjöti og mjólk.
Rökstuðningur: Í lok síðasta árs var skoðanakönnun lögð fyrir alla nautgripabændur á Íslandi. Í þeirri könnun voru bændur spurðir hvernig þeir vildu sjá stuðningsgreiðslur sem greiðast úr búvörusamningum þróast. Alls vildi 76% svarenda sjá aukið fjármagn á framleiðslutengda liði. Í framhaldinu var spurt á hvaða stuðningsgreiðslur bændur vilja að mest áhersla sé lögð. Mjólkurframleiðendur leggja mesta áherslu á greiðslur út á innvegna mjólk og greiðslur út á greiðslumark. Nautakjötsframleiðendur leggja mesta áherslu á sláturálag sem fæst í gegnum ”Nautakjötsframleiðslulið” samningsins. Allt eru þetta framleiðslutengdar greiðslur.
Íslensk mjólkurframleiðsla býr við framleiðslustýringu. Árlega er gefið út heildar greiðslumark sem byggist á söluspám þess árs. Þannig er komið í veg fyrir bæði skort á mjólk og óhóflegri umframframleiðslu. Neysla mjólkur og mjólkurvara hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og þar með heildar greiðslumarkið. Á síðustu 10 árum hefur heildar greiðslumarkið hækkað um 34,5 milljónir lítra. Framleiðslutengdur stuðningur á hvern mjólkurlíter hefur því þynnst verulega út. Í ljósi þess að í mjólkurframleiðslu er framleiðslustýring sem virkar, telja kúabændur framleiðslutengdan stuðning öruggustu leiðina til að tryggja næga framleiðslu mjólkur og fæðuöryggi, auk þess að vera hvetjandi til árangurs og hagræðingar í framleiðslu hvers bús.
Eftirspurn eftir nautakjöti hefur einnig aukist mikið undanfarin ár með fólksfjölgun og fjölgun ferðamanna. Enn anna íslenskir bændur ekki innanlandsþörf um nautakjöt og því mikil tækifæri falin í greininni, náist ásættanleg afkoma af framleiðslunni. Er það álit þingsins að framleiðslutengdur stuðningur sé vænleg leið til að hvetja til aukinna afkasta og hagræðingar í framleiðslu meðal nautakjötsframleiðenda og tryggja að þau sem sannanlega skila vöru á markað fá stuðning greiddan til sín.
Með því að auka áherslu á greiðslur vegna framleiðslu, er verið að hvetja til sem mestrar framleiðslu eftir hvern grip sem m.a. dregur úr kolefnisspori greinarinnar.
6. Niðurfelling gripagreiðslna á mjólkurkýr
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 samþykkir að beina því til stjórnar BÍ að horfið verði frá gripagreiðslum á mjólkurkýr. Þess í stað verði því fjármagni sem í dag er greitt út á mjólkurkýr, greitt út á framleiðslutengda liði mjólkur. Áfram verði gripagreiðslur á holdakýr.
Rökstuðningur: Einfaldara kerfi, skilvirkara og loftlagsvænna. Fyrirkomulag skerðingar gripagreiðslna eins og þær eru í dag koma niður á rekstri búa þegar búum hefur fækkað og þau stækkað. Eðlilegra væri að greiðslur sem greiddar eru út á mjólkurkýr séu greiddar út á framleidda mjólk, þá er um beinan stuðning á mjólkurframleiðslu að ræða. Fjármunir sem nú fara í gripagreiðslur holdakúa þurfa að haldast innan þeirrar búgreinar. Finna má aðrar leiðir til að útdeila fénu til þessara aðila en horfa þarf til að féð komi snemma í framleiðsluferlinu, skapi stöðugar rekstrartekjur, gefi möguleika á að skipta upp framleiðslunni, kálfar/eldi og auðveldi aðgengi fyrir nýja aðila inn í greinina o.fl.
7. Afkoma af kjöteldi kálfa af mjólkurkúakyni
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar Nautgripabænda að beita sér fyrir bættum kjörum bænda í nautkálfaeldi af mjólkurkúakyni og fundin verði leið til að koma stuðningi snemma inn í framleiðsluferlið. Einnig er því beint til stjórnar að fá nýtt fjármagn í búvörusamning til stuðnings nautakjötsframleiðslu og að því verði beint á framleiðslutengda liði (sláturálag).
Rökstuðningur: Nautgriparæktin í heild sinni þekkir vandamál sem snýr að ásetningi nautkálfa af mjólkurkúakyni og hve alvarlegt það gæti orðið afspurnar að kálfum sé fargað nokkurra daga gömlum. Afleit afkoma af eldi þessara gripa verður til þess að ásetningur fer hratt minnkandi. Vandamálið er að hluta heimatilbúið því afurðaverð nautakjöts hefur ekki enn náð fyrra verði frá því samið var árið 2015 um útflutningsheimildir skyrs í skiptum fyrir innflutningsheimildir nautakjöts. Var það gert vegna hagsmuna bænda og afurðastöðva. Nú eru það er einmitt hagsmunir þessara sömu aðila að það vandamál sem upp er komið verði leyst. Þarf að leita leiða til þessa með aðkomu afurðastöðva og jafnvel stjórnvalda. Þetta er bráðavandi sem þarf að leysa strax og því skoðandi hvort notaðir verði aðrir fjármunir þar til varanleg fjármögnun finnst. Þar mætti til dæmis horfa til fjármagns frá framleiðslujafnvægislið búvörusamninga til bráðabirgða. Aukinn ásetningur er atvinnuskapandi, jákvæður út frá loftslagsmálum og kæmi í veg fyrir álitshnekki er snúa að förgun smákálfa.
Sláturálag nýtist öllum nautakjötsframleiðendum en eins og staðan er í dag má áætla að um 75% gripa sem njóta sláturálags séu af mjólkurkúakyni. Því er mikilvægt að nýir peningar sem verða að nást til nautakjötsframleiðslunnar við endurskoðun búvörusamninga verði nýttir sem viðbót á sláturálag og að kröfur til gripa sem fá það álag haldist óbreyttar. Þegar/ef kyngreint sæði verður komið til notkunar mætti svo skoða að herða kröfur til sláturálags og þannig hvetja til notkunar kyngreinds erfðaefnis, auka fagmennsku og skila jafnari, einsleitari og verðmætari vöru á markað til neytenda.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar BÍ að fá svör stjórnvalda við því hvort ætlunin sé að halda framleiðslu nautakjöts í landinu og að samninganefndir beggja aðila tryggi þá nautakjötsframleiðendum stuðning við endurskoðun búvörusamninga og öruggara rekstrarumhverfi til lengri tíma.
Rökstuðningur: Þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir íslensku nautakjöti, að engar kjötbirgðir séu í geymslum og allir innviðir séu til staðar til að auka framleiðsluna, þá er staðan sú að fæddir nautkálfar eru í auknum mæli sendir nokkurra daga gamlir til slátrunar þar sem afurðaverð ungnauta stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Með öðrum orðum er hreinlega verið að flytja framleiðsluna úr landi. Nautakjötsframleiðsla, sem í auknum mæli er rekin sem sér búgrein óháð mjólkurframleiðslu, stendur fjárhagslega hvað verst búgreina eins og gögn Hagstofu sýna.
Í kjölfar tollasamnings árið 2015 við ESB um margföldun tollkvóta / innflutningsheimilda nautakjöts (úr 175 í 801 tonn) og heimildar til innflutnings á fersku kjöti lækkaði afurðaverð og vantar mikið upp á að hafa náð því afurðaverði sem var áður en áhrifa þessa tollasamnings fór að gæta. Á sama tíma og innflutningur hefur aukist hafa aðföng stórhækkað í verði og fjármagnskostnaður aukist.

Auknir tollkvótar/innflutningsheimildir hafa ekki skilað sér í lækkuðu verði til neytenda skv. verðkönnunum, einungis lækkað afurðaverð til bænda og þannig stefnt innlendri nautakjötsframleiðslu í hættu. Frá árinu 2004 hefur framleiðsla og þar með sala (þar sem allt selst) á íslensku nautgripakjöti aukist um 1.356 tonn samkv. mælaborði landbúnaðarins. Árið 2019 greiddu nautakjötsframleiðendur að meðaltali 603 krónur með hverju framleiddu kílói, 568 krónur árið 2020 og 412 krónur árið 2021 samkvæmt skýrslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um afkomu í nautgriparækt. Það er óviðunandi að bændur stórtapi á framleiðslu nautakjöts svo árum skipti.
Sjá má fyrir mikil tækifæri og mikinn uppgang nautakjötsframleiðslu á Íslandi verði henni sköpuð rekstrarskilyrði. Nægir þar til dæmis að nefna að innflutningur nýs erfðaefnis kjötræktargripa af Angus kyni frá Noregi árið 2018, sem gerð var með aðkomu stjórnvalda, hefur aukið framlegð og gæði kjöts og stendur á ákveðnum tímamótum hvað varðar stórstígar framfarir. Vonir eru um aðgengi að kyngreindu erfðaefni á næstu misserum sem mun stækka fyrrgreindan hluta kjötframleiðslunnar með aðkomu mjólkurframleiðenda. Tækifæri til bættrar landnýtingar og sérhæfingar er að hefjast hér, t.d. með því að sinn hvor aðilinn sjái um framleiðslu kálfa annars vegar og eldi hins vegar og nýti þar með kosti lands hvors um sig. Fyrrgreindar aðgerðir í ytra umhverfi greinarinnar hafa orðið til þess að bændur hafa ekki og munu ekki njóta ávinnings þessara framfaraskrefa eins og umhverfið og rekstrarforsendur eru í dag.
Vandi greinarinnar hefur verið viðurkenndur af stjórnvöldum síðastliðin tvö ár með einskiptisaðgerðum í formi auka fjárstuðnings við greinina, sem munaði mikið um en dugði ekki til eins og sjá má á afkomuskýrslu RML. Mikilvægt er að fá skýr svör við því hvort ætlunin sé að halda framleiðslu nautakjöts í landinu og tryggja þá greininni stuðning og öruggara rekstrarumhverfi til lengri tíma. Á það jafnt við um beinan stuðning, óbeinan í gegnum heimildir til hagræðingar í sláturiðnaði og með tollvernd, en þar er t.d. tilefni til endurskoðunar tollasamnings ESB vegna útgöngu Breta, sem leiðir af sér brostnar forsendur samnings.
Að lokum má nefna að nautgriparækt hefur verið þungum sökum borin er kemur að umræðu um loftslagsmál en ekki hefur farið nægjanlega hátt að íslenskt nautakjöt er með allt að helmingi lægra kolefnisspor en erlent nautakjöt þegar reiknað hefur verið inn alþjóðlegt meðaltal fyrir kolefnisspor landnotkunar. Alþjóðlega á sér einnig stað rannsókna- og tilraunastarf sem miðar að því að draga úr eða nær eyða metanlosun frá meltingarvegi nautgripa. Miklu fjármagni er varið til þessara rannsókna og þar eru mikil tækifæri sem sést t.d. á því að auðugustu fjárfestar heims eru komnir á fullt í þessar rannsóknir. Öflugra kyn til eldis í kjötframleiðslu er einnig farið að stytta eldistímann, sem minnkar eitt og sér kolefnisspor greinarinnar. Því er rétt að fara mjög varlega í að nota stöðu loftslagsmála í augnabliki nútíðar í stefnumörkun framtíðar.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til samninganefndar BÍ að við endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar verði eftirfarandi ákvæði komið inn í samningana, sem og búvörulög: „Greiðslumark framleiðenda þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. heilt verðlagsár fer sjálfkrafa á markað. Greiðslumarkshafi fær greitt fyrir það jafnvægisverð markaðarins.“
Rökstuðningur: Í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar frá 2016 kemur fram í grein 3.3 að ”Greiðslumark framleiðenda þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. heilt verðlagsár innleysir ríkið án þess að bætur komi fyrir. Áður en til þess kemur er framleiðendum heimil innlausn samkvæmt grein 3.5”. Við endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar árið 2019 var fallið frá niðurfellingu greiðslumarks og flest ákvæði 3. greinar úr samningi 2016 felld úr gildi. Í ljósi þess er óljóst hvort að ákvæðið um greiðslumark þar sem engin framleiðsla fer fram sé í gildi í dag. Í 53. grein búvörulaganna kemur eftirfarandi fram: ”Greiðslumark þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. eitt verðlagsár skal falla niður”. Leggur þingið því til að ákvæðinu verði komið inn í samning um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar og að búvörulögunum verði breytt svo það standist lög um eignarrétt.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur til þess að bændur standi við samninga um að framleiða upp í greiðslumark sitt. Koma þarf á því umhverfi að vannýtt greiðslumark fari á markað og endi hjá þeim sem sannanlega framleiða mjólkina.
Rökstuðningur: Stefna ber að því að sem best samhengi sé á milli greiðslumarks og framleiðslu búa. Erfitt er að áætla fyrir fram hversu mikið kemur til útjöfnunar að loknu framleiðsluári og þar með er hætta á því að sú staða myndist að ekki náist að framleiða fyrir þarfir markaðarins. Núverandi kerfi byggir á því að einhverjir bændur séu tilbúnir til að framleiða umfram greiðslumark, án þess að vita hversu mikið þeir fá greitt fyrir mjólkina, til þess að fylla skarð þeirra sem ekki nýta sitt greiðslumark.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 leggur til að heimilt verði að gjaldfæra kaup á greiðslumarki. Enn fremur verði heimilt að gjaldfæra greiðslumark sem þegar hefur verið keypt en ekki gjaldfært í reikningum bænda.
Rökstuðningur: Til þess að auðvelda nýliðun, auka hagræði í greininni og styrkja stöðu hennar og framþróun.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 skorar á Matvælaráðherra að gera framkvæmd á 6. grein 348/2022 reglugerðar um stuðning í nautgriparækt og 32. grein búvörulaga nr. 99/1993, skýrari. Greinarnar fjalla um tímabundna undanþágu frá framleiðsluskyldu vegna áfalla í búrekstri sem valda afurðatjóni.
Rökstuðningur: Eins og þessar greinar eru í dag er það mjög svo háð geðþótta starfsmanna Matvælaráðuneytisins hvort bændur fái undanþágu á endurgreiðslu ríkisstuðnings lendi þeir í óeðlilega miklum skakkaföllum sökum dýrasjúkdóma eða annara áfalla. Afurðartjón sem bændur verða fyrir vegna slíkra áfalla er nógu mikið þó þeir þurfi ekki að standa í stappi við starfsmenn Matvælaráðuneytisins um að fá þá undanþágu á endurgreiðslu ríkisstuðnings sem getið er í 6. grein reglugerðar um stuðning í nautgriparækt. og 32. grein búvörulaga nr. 99/1993. En að sögn starfsmanna ráðuneytisins túlka þeir þessar undanþágur mjög þröngt og ólíklegt sé að þær séu veittar og engin röksemdafærsla fæst fyrir höfnun. Tímarammi verði settur á afgreiðslu erinda.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur til þess að við endurskoðun búvörusamninga verði lögð áhersla á að tryggja stöðu nýliða í mjólkurframleiðslu. Þetta mætti m.a. gera með eftirfarandi aðgerðum:
að veita nýliðum forgang að markaði með greiðslumark
að greiða sérstakt nýliðaálag á stuðningsgreiðslur
að veita nýliðum aðgang að hagstæðri fjármögnun
Rökstuðningur: Landbúnaður og sérstaklega mjólkurframleiðsla er fjármagnsfrek starfsemi. Velta í greininni er tiltölulega lítil miðað við fjárbindingu og því er hár inngöngu-þröskuldur í greinina. Eigi að tryggja mjólkurframleiðslu og annan landbúnað til framtíðar verður að eiga sér stað nýliðun í stétt kúabænda. Nýliðun er best tryggð með því að afkoma greinarinnar sé góð og að það sé spennandi kostur fyrir ungt fólk að stunda mjólkurframleiðslu. Sértækar aðgerðir, líkt og þær sem getið er um í tillögunni, geta svo enn fremur stuðlað að nauðsynlegri endurnýjun stéttarinnar.
Fyrir Búgreinaþinginu lágu tillögur að breytingum á samþykktum Bændasamtaka Íslands sem snúa að búgreinadeildunum. Hugmyndin er að samræma fresti og starf í aðdraganda Búgreinaþings og setja skýrari ramma um stjórnir búgreinadeilda samtakanna, með því að koma tilteknum ákvæðum inn í samþykktir BÍ, til að einfalda utanumhald. Tillögurnar voru einungis til umræðu á þinginu en ekki formlegrar afgreiðslu, þar sem um er að ræða breytingar á samþykktum BÍ. Ákveðið var að senda tvær ályktanir frá þinginu er snýr að þessu, ályktun 14.1 og 14.2.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 leggur til að ekki verði sett stærðarmörk á kjördeildir búgreinadeilda.
Rökstuðningur: Nauðsynlegt er að á Búgreinaþing komi fulltrúar bænda af sem flestum svæðum á landinu og þá sérstaklega þar sem búgreinin á undir högg að sækja.
14.2. Félagatal Bændasamtaka Íslands
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar að láta kanna lögmæti þess að félagatal samtakanna sé aðgengilegt félagsmönnum á læstu svæði félagsmanna á Bændatorginu.
Rökstuðningur: Ljóst er að enn eru ekki allir bændur félagsmenn í Bændasamtökum Íslands. Komið hefur fyrir í kosningum að atkvæði hafi verið ógild þar sem viðkomandi bóndi er ekki með fullgilda aðild að Bændasamtökunum. Það skiptir miklu máli að kjósendur hafi val um fulltrúa og varamenn.
15. Búgreina- og Búnaðarþing sameinað
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar BÍ að sameina Búgreina- og Búnaðarþing í einn sameiginlegan viðburð.
Rökstuðningur: Nautgripabændur telja það eðlilegt næsta skref í sameiningu nýrra og öflugra Bændasamtaka að sameina Búgreina- og Búnaðarþing í eitt stærra og öflugra þing. Með því má spara fundarkostnað, bæði í formi salaleigu en einnig ferðakostnað fulltrúa. Auk þess myndi tími starfsfólks nýtast betur á ársgrundvelli, þar sem ekki þarf að skipuleggja tvö þing. Á fyrsta degi mætti halda sameiginlega setningarathöfn, fara yfir sameiginleg málefni allra deilda ásamt því að tími gæfist fyrir nefndarstarf. Á degi tvö yrði Búgreinaþingið haldið en á þeim þingum eru einungis tekin fyrir sérhæfð málefni deildanna. Á degi þrjú væri Búnaðarþingið síðan haldið. Í lok þinganna væri hægt að efna til sameiginlegrar árshátíðar með tilheyrandi skemmtun. Fulltrúar inn á Búnaðarþing yrðu kosnir fyrir þingið, á sambærilegan hátt og stærri deildir samtakanna kjósa fulltrúa sína inn á Búgreinaþing. Þeir fulltrúar sem sitja bæði þingin starfa þannig í tveimur nefndum samhliða fyrir þingið.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023, beinir því til stjórnar búgreinadeilda og Búgreinaráðs að kynna vel aðgengi almenns félagsfólks búgreinadeilda að Búgreinaþingum. Vert er að skoða möguleika á beinum útsendingum fyrir félagsmenn.
Rökstuðningur: Í samþykktum Bændasamtaka Ísland segir: „Fullgildir félagsmenn BÍ innan hverrar búgreinadeildar skulu hafa rétt til fundarsetu, og kjörgengi á Búgreinaþingi sinnar deildar, nema samþykktir/reglur búgreinadeildar tiltaki annað fyrirkomulag. Stjórn BÍ og starfsfólk hefur einnig málfrelsi og tillögurétt á þinginu.“ Fyrirspurn til BÍ um aðgengi félagsfólks var svarað með því að ekki væri mögulegt að bjóða öllum bændum til þings vegna kostnaði sem því fylgdi. Á Búgreinaþingi 2022 var ekki gert ráð fyrir gestum í þingsal þó reglur um þinghald kveði á um slíkt. Þau sem senda inn tillögur hafa því ekki kost á að hlusta á umræður og málsmeðferð eða fylgja þeim eftir með því að nýta rétt sinn til málfrelsis og tillöguréttar.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023, beinir því til stjórnar búgreinadeildar nautgripabænda og Búgreinaráðs að skýra verklag og eftirfylgni tillagna á búgreinaþingi, m.a. tilkynna um framgang og eftirfylgni.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023, hvetur stjórn og framkvæmdastjóra BÍ til þess að fylgjast með umræðu á opinberum vettvangi og leggja til málanna eftir því sem ástæða þykir til.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar deild nautgripabænda BÍ og stjórnar BÍ að hefja án tafar vinnu við að tryggja stofnfjármagn til kyngreiningar á nautgripasæði og hraða innleiðingu sem fyrst ef hagkvæmur grundvöllur er fyrir verkefninu.
Rökstuðningur: Kyngreining á sæði hefur ýmsa hagkvæma kosti, svo sem að gera íslenska mjólkurkúakynið að betra tvínytja kyni með því að sæða síðri kýr með holdasæði, þannig eykst úrvalsstyrkur kynbóta og fækkar kvígum í mjólkurkúauppeldi en nautkálfar verða betri til kjötframleiðslu. Það ætti að draga úr húsnæðisþörf fyrir uppeldi mjólkurframleiðslugripa, auka velferð gripa, hraða erfðaframförum, en síðast en ekki síst bæta hag bænda og vera mjög loftslagsvæn aðgerð.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 skorar á stjórn deildar Nautgripabænda BÍ að klára vinnu við endurskipulagningu sæðingastarfsemi í nautgriparækt. Á Aðalfundi LK 2021 og Búgreinaþingi nautgripabænda 2022 og á Búnaðarþingum 2021 og 2022 kom í ljós eindreginn vilji kúabænda til að sameina sæðingastarfsemi í nautgriparækt undir eina faglega yfirstjórn og jafna sæðingakostnað að fullu milli héraða. Á haustmánuðum 2022 hófst samtal þeirra Búnaðarsambanda sem reka nautgripasæðingar og leggja þarf kapp á að klára þá vinnu.
Rökstuðningur: Sjá efni tillögu
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur RML og fagráð nautgriparæktar til að kynna betur verkefnið erfðamengjaúrval fyrir bændum.
Rökstuðningur: Erfðamengjaúrvalið þarf frekari kynningu hjá bændum til að auka skilning og hvetja til þátttöku við sýnatöku.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar deildar nautgripabænda BÍ að endurskoða matsskala fyrir skap á fyrsta kálfs kvígum
Rökstuðningur: Leiðbeiningar á mati á skapi ná aðeins yfir skap í mjöltum, en taka ekki tillit til skaps í umgengni, en það fylgir ekki alltaf saman, því kvíga getur verið spök og róleg í umgengni en óróleg í mjöltum og öfugt. Það er þá allur gangur á því í hvaða hlutföllum bændur meta þessa skapþætti og ósamræmið í skapeinkunn því verulegt milli búa. Ein leið til að jafna þetta mat gæti verið að taka upp tvo skapeinkunna skala þannig að bændur þurfi að gefa einkunn fyrir skap í mjöltum annars vegar og skap í umgengni hins vegar. Svo er hægt að vega þær einkunnir saman í eina skapeinkunn í þeim hlutföllum sem þykja rétt, á sama hátt og gert er með t.d. einkunn fyrir spena.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til RML og fagráðs nautgriparæktar að tekið sé saman skýrsluhald í holdagriparæktuninni og birt með reglulegum hætti líkt og gert er í mjólkurframleiðslunni.
Rökstuðningur: Það væri brýnt fyrir greinina ef framleiðendur gætu borið sig saman við aðra í sömu grein. Þyngsta nautið eða mesti vaxtarhraði einstaklings gefa takmarkaðar upplýsingar. Gott væri að aðgreina Íslendinga og holdagripi í uppgjöri og taka holdakvígur sér líka. Til verði skýrsluhaldslisti yfir holdabú með meðalvaxtarhraða yfir t.d. 450g/dag. Sambærilegt við kúabú með meðalafurðir yfir 5000l/kú. Bú með Íslendinga yfir 350g/dag. Þessi gögn eru öll til í Huppunni og ætti að vera skotaskuld eftir smá forritunarvinnu að sækja þau sjálfvirkt.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til RML að þróa og útbúa sjónrænar skýrslur í DK-Búbót, einskonar mælaborði fyrir reksturinn.
Rökstuðningur: Miklar upplýsingar liggja í bókhaldi bænda sem mætti gera aðgengilegri með sjónrænum hætti á skýrslum/mælaborði. Teljum að slíkt myndi auka meðvitund, skilning og áhuga bænda á hagtölum síns rekstrar.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar deildar nautgripabænda BÍ að láta útbúa og auglýsa handhægar leiðbeiningar fyrir bændur um sóttvarnir í fjósum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, t.d. veiruskitu, parainflúensu o.fl.
Rökstuðningur: þar sem reglulega koma upp smit í fjósum væri hægt að taka saman leiðbeiningar til bænda til að reyna að minnka smithættu.
26. Rafrænt bókhald
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur RML til að kynna fyrir bændum möguleika á rafrænu bókhaldi og innsendingu reikninga beint inn í DK búbót.
Rökstuðningur: Með því að koma bændum í rafrænt bókhald má flýta, samræma og einfalda vinnu við bókhald bænda til muna. Einnig væri það raunhæft að RML geti birt hálfsársuppgjör hafi RML leyfi til að sækja gögn í DK-bókhald bænda og ýta við bændum sem eftir eiga að bóka rafræna reikninga.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur stjórn BÍ til að vakta verðhækkanir á aðföngum og ýti á stjórnvöld að bregðast við hratt þegar við á.
Rökstuðningur: Mikilvægt er að afkoma þeirra er landbúnað stunda sé trygg og valdi ekki áhyggjum af afkomuöryggi.
28. Verðlagsgrundvöllur kúabús
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 fagnar því að vinna við verðlagsgrundvöll kúabús sé farin af stað, hvetur til þess að vinnan gangi hratt og vel fyrir sig og vandað sé til verks svo að hann nýtist sem best við endurskoðun búvörusamninga.
Rökstuðningur: Sérfræðingar hjá RML, mjólkuriðnaðinum og hagfræðingar BÍ hafa sýnt fram á vankanta núverandi verðlagsgrundvallar og að hann uppfylli ekki hlutverk sitt í búvörulögum.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar Nautgripabænda BÍ að gerður verði verðlagsgrundvöllur fyrir nautgripakjöt, í nafni LK.
Rökstuðningur: Landssambandi kúabænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda fyrir einstaka flokka nautgripakjöts samkvæmt 8. gr. Búvörulaga (99/1993). Til grundvallar þeirri útgáfu þyrfti að liggja verðlagsgrundvöllur.
30. Áhyggjur af nýliðun
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 lýsir yfir miklum áhyggjum af lítilli nýliðun í greininni ásamt afkomu greinarinnar.
Rökstuðningur: Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að nýliðunarstuðningur geri ekki nógu mikið gagn þar sem að afkoma í greininni er ekki nógu góð og öruggari rekstrargrundvöll vantar. Greinin þarf aðgang að þolinmóðu fjármagni á lágum vöxtum til að nýliðar sjái sér hag í að velja landbúnað umfram annan rekstur.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til Búnaðarþings að kannað verði hvort breyting á rétti bænda til að hefja töku á lífeyri fyrr, væri til þess að auðvelda nýliðun í landbúnaði.
Rökstuðningur: Nýliðun er einn af þeim þáttum sem að horfa þarf til með tilliti til matvælaöryggis þjóðar. Það að bændur hafi val um að taka út sinn lífeyrir fyrr gæti orðið til þess að þeir séu fyrr tilbúnir til þess að láta af búi og láta ævistarfið í hendur yngri kynslóða. Þetta gæti verið til þess að tryggð sé áframhaldandi búrekstur jarða til lengri tíma.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar BÍ að hefja þegar í stað viðræður við stjórnvöld og/eða viðeigandi stofnanir um aðgang að hagstæðu lánsfé til landbúnaðar.
Rökstuðningur: Það er óásættanlegt að ungir bændur sem hefja búskap eða bændur sem ráðast í miklar fjárfestingar til áratuga, þurfi að búa við miklar sveiflur á lánskjörum með tilheyrandi forsendubresti í þeirra áætlunum. Miklar sveiflur á fjármagnskostnaði í landbúnaði ógna afkomu bænda og fæðuöryggi þjóðarinnar.
33. Aðgerðaráætlun um eflingu kornræktar á Íslandi
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar BÍ að nýtt fjármagn þurfi til að fylgja orðum stjórnvalda um eflingu kornræktar.
Rökstuðningur:Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ fagnar áhuga stjórnvalda á kornrækt og þeim tillögum sem starfshópur um málefni á vegum Matvælaráðuneytisins skilaði frá sér. Teljum við að þessi viðbót við matvælaframleiðslu landsins sé öllum til hagsbóta en það sé þó nauðsynlegt að tryggt verði nýtt fjármagn til þess.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 hvetur stjórn BÍ til þess að skoða möguleika á að blanda koltvísýringi í búfjáráburð og nýta hann þannig til ræktunar, í stað þess að dæla honum niður í jörðina engum til gangs. Ef hægt er að blanda þessu lífsnauðsynlega efni í búfjáráburð, er ljóst að það mun draga verulega úr notkun tilbúins áburðar.
Rökstuðningur: Koltvísýringur (CO2) er litlaus lofttegund í andrúmslofti jarðarinnar
u.þ.b 0,037 % af lofthjúpnum. Þrátt fyrir þetta litla magn, er koltvísýringurinn undirstaða/forsenda alls lífs á jörðinni, þar sem hann er nauðsynlegur plöntum til þess að ljóstillífun geti átt sér stað. Án gróðurs er ekkert líf. Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu er oftast mældur sem ppm (milljónustu hlutar rúmmáls). Talið er að koltvísýringur eigi að hluta til þátt í hlýnun andrúmsloftsins, en þar koma til mjög margir aðrir þættir, s.s. möndulhalli jarðar, landris, landrek (flekahreyfingar), breytingar á hafstraumum, breytingar á sporbaug jarðar, raki í lofthjúpnum, gjóska og önnur efni frá eldsumbrotum o.m.m.fl. Enn er ekki að fullu ljóst hvort og þá hvernig þessir fjölmörgu þættir hafa áhrif innbyrðis. Einnig liggur ekki fyrir hve stór hlutur koltvísýrings í hlýnuninni er. Koltvísýringur er notaður í gróðurhúsum til þess að auka uppskeru. Koltvísýringurinn sem garðyrkjubændur nota, kemur úr borholu í Grímsnesi. Magn koltvísýrings í gróðurhúsi er stillt af við u.þ.b. 900 ppm. Magn koltvísýrings í andrúmslofti er u.þ.b. 418 ppm og hefur farið hækkandi á síðustu áratugum. Nú eru a.m.k. þrjú verkefni í gangi, sem ganga út það, að minnka magn koltvísýrings í andrúmsloftinu. Tvö þeirra ganga út það að dæla koltvísýringnum niður í berggrunninn, en eitt verkefnið gengur út það að umbreyta koltvísýringi í eldsneyti. Eftir því sem hefur komið fram í fjölmiðlum, er hugmyndafræðin bak við eitt verkefnið að flytja koltvísýring með skipum til Íslands og dæla honum hér ofan í berggrunninn. Plöntur umbreyta koltvísýringi í súrefni, sem losnar út í andrúmsloftið, og kolefni sem binst í gróðrinum. Því hærra sem gildið er, því betur þrífst gróðurinn og gefur meiri uppskeru. Það hlýtur að vera umhugsunarvert að skoða möguleika á því að nýta þetta lífsnauðsynlega efni þannig að það gagnist gróðri og þar með
matvælaframleiðslu í heiminum.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til stjórnar BÍ að hefja þegar í stað vinnu með stjórnvöldum við að endurmeta losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði. Ekki er lengur hægt að sitja undir því að loftslagsáhrifum landbúnaðar sem byggir á náttúrulegum ferlum sé jafnað saman við losun gróðurhúsalofttegunda frá brennslu á jarðefnaeldsneyti vegna ferðalaga eða losun frá mengandi iðnaði. Árétta þarf að öll kolefnissambönd sem losna í búfjárrækt hafa áður verið bundin úr andrúmslofti í fóðri. Þannig er hin náttúrulega hringrás landbúnaðar sem knúin er af orku sólar.
Rökstuðningur: Kolefni (á formi koldíoxíðs) er numið úr andrúmslofti og bundið í plöntur. Plöntum er umbreytt í fóður og framleiddar afurðir á borð við mjólk og kjöt. Búfjáráburði er skilað í hringrásina. Jórturdýr (sauðfé og nautgripir) gegna meginhlutverki í því að umbreyta gróffóðri sem ekki nýtist til manneldis í hágæða prótein fyrir tilstuðlan örvera í vömb. Við þetta ferli losnar metan sem á 10-12 árum brotnar niður í koldíoxíð sem síðar er tekið upp af plöntum til vaxtar. Sé búfjárfjöldi í jafnvægi eða að fækka verður ekki aukning á metani í andrúmslofti. Því er ekki hægt að leggja að jöfnu framleiðslu metans frá jórturdýrum sem á uppruna sinn í náttúrulegri kolefnishringrás og losun metans frá iðnaðarstarfsemi og bruna eldsneytis. Losun frá framræstu votlendi þarf að endurmeta og byggja á öllum tiltækum rannsóknum hérlendis. Ekki er ásættanlegt að styðjast eingöngu við stuðla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) fyrir framræst votlendi á norðlægum slóðum. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. 1. Íslenskur jarðvegur er mun steinefnaríkari en sá jarðvegur sem stuðlarnir byggja á. 2. Rannsóknirnar sem stuðlarnir byggja á voru framkvæmdar á tilraunastöðum þar sem lofthiti er mun hærri. 3. Aldur framræslu hefur mikil áhrif á losun. Eftir því sem líður frá framræslu og land þornar og sígur saman, dregur úr aðgangi súrefnis að lífrænu efni og hægir á jarðvegsöndun (losun CO2). Íslensk ræktun er að mestu leyti á 40-60 ára gamalli framræslu þar sem verulega hefur hægt á losun gróðurhúsalofttegunda. 4. Framræst votlendi á Íslandi er frjósamt ræktunarland og á slíku landi er mikil uppskera og þar með mikil binding á kolefni úr andrúmslofti. Líklegt má því telja að á uppskerumiklum túnum á gamalli framræslu sé nettó binding á kolefni frekar en losun. Þetta hafa íslenskar rannsóknir leitt í ljós.
Búgreinaþing Nautgripabænda BÍ, haldið í Reykjavík 22. – 23. febrúar 2023 beinir því til Búnaðarþings að mjög brýnt sé að sem fyrst verði fundin lausn sem uppfyllir lagaskyldur, til móttöku og förgunar dýrahræjum og öðrum lífrænum úrgangi. Við þá vinnu verði horft til þess að allir hafi jafnan aðgang að slíkri þjónustu, óháð búsetu.
Rökstuðningur: Engin varanleg lausn virðist vera til í landinu þrátt fyrir lagaákvæði og mikil brotalöm víðast hvar á landinu í þessum málum.