Beint í efni

Lög Félags hrossabænda

samþykkt á aðalfundi félagsins 11. nóvember 2005.

1. grein.
Félagið heitir Félag hrossabænda. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.
Félagið mynda sjálfstæð svæðisfélög sem starfa samkvæmt lögum um búfjárrækt, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samþykktum Bændasamtaka Íslands.

3. grein.
Svæðisfélög skulu opin öllum hrossabændum og þeim sem stunda hrossarækt. Til að svæðisfélag teljist fullgildur aðili þarf það að hafa minnst 25 félaga, eða ná yfir heila sýslu og skulu lög viðkomandi félags hafa hlotið samþykki aðalfundar félagsins. Þegar um er að ræða kosningar til Búnaðarþings, og eða aðrar kosningar, sem tengjast Bændasamtökum Íslands, skulu gilda lög og reglur B. Í. um kjörgengi.

4. grein.
Tilgangur félagsins er eftirfarandi:
a) Að vera málsvari aðildarfélaga og einstakra félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
b) Að vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins sem reiðhests, með kynbótum, skýrsluhaldi og mótun ræktunarstefnu í samvinnu við Bændasamtök Íslands, þar með talin þátttaka í fagráði.
c) Að glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og kynningarstarfi.
d) Að vinna í samvinnu við önnur félög að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa.
e) Að stuðla að hóflegri landnýtingu og umhverfisvernd.
f) Að vinna að sölumálum fyrir reiðhesta og kynbótahross, innanlands og erlendis og hafa um það samvinnu við aðra aðila, með það að markmiði að skapa aukin verðmæti, hrossaeigendum og þjóðinni til hagsældar.
g) Að vinna að sölumálum fyrir hrossaafurðir, jafnt á innlendum, sem erlendum mörkuðum, með það að markmiði að auka verðmæti afurðanna.

5. grein.
Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda árlega á tímabilinu 1.október til 30. nóvember, en heimilt er að halda aukafund þess utan ef þurfa þykir. Skylt er að kalla saman aukafund ef helmingur aðildarfélaga, eða helmingur aðalfundarfulltrúa óskar þess. Slíka ósk skal bera fram skriflega. Aðalfund skal boða á tryggilegan hátt með eins mánaðar fyrirvara. Aukafund með minnst 14 daga fyrirvara. Á aðalfundi gilda almenn fundarsköp. Aðalfundur getur staðið í 1-2 daga.

6. grein.
Á aðalfundi skal:
a) Flutt skýrsla um störf stjórnar.
b) Lagðir fram og skýrðir endurskoðaðir reikningar félagsins, ásamt félagaskrá aðildarfélaga. 
c) Kjósa stjórn og skoðunarmenn.
d) Önnur mál.
Á aðalfundi skulu starfa eftirtaldar nefndir: Fjárhagsnefnd, sem er um leið uppstillingarnefnd, allsherjarnefnd, ræktunarnefnd, markaðsnefnd og aðrar þær nefndir, sem fundurinn ákveður hverju sinni.

7. grein.
Á aðalfund skulu mæta eftirtaldir aðilar með fullum réttindum: Allir kjörnir formenn aðildarfélaga. Auk þess kjörnir fulltrúar frá hverju aðildarfélagi sem hér segir: Fyrir 1-50 félagsmenn, 1 fulltrúi, fyrir 51 til 100 félagsmenn 2 fulltrúar, fyrir 101 til 150 félagsmenn 3 fulltrúar, fyrir 151 til 200 félagsmenn 4 fulltrúar o.s.frv.

8. grein.
Stjórn félagsins skipa 5 menn kosnir til þriggja ára og þrír til vara. Skulu þeir kosnir þannig, að formaður skal kosinn sérstaklega þriðja hvert ár og tveir meðstjórnendur hvort hinna áranna. Fullskipuð stjórn kýs varaformann úr sínum röðum. Aðalfundurinn kýs tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára og tvo til vara.

9. grein.
Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Krefjist tveir stjórnarmenn fundar ber formanni að boða til hans. Stjórnarfund skal boða með minnst fimm daga fyrirvara. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka, og/eða gert tillögu til aðalfundar um slíkt, sé það talið henta.
Stjórn félagsins fer með öll málefni félagsins milli aðalfunda. Aukinn meirihluti aðalfundar og/eða stjórnar getur ákveðið að fram fari skrifleg kosning allra félagsmanna um kjör trúnaðarmanna eða ákveðin málefni. Snerti málefnið alla hrossabændur, fá þeir hrossabændur, sem ekki eru í félaginu og eiga 26 hross eða fleiri samkvæmt síðustu forðagæsluskýrslu og eru ábúendur á lögbýli einnig atkvæðisrétt. Stjórnin skipar kjörstjórn sem sér um framkvæmd kosninga.

10. grein.
Stjórnin sendir fréttir af starfi stjórnar og nefnda út til aðildarfélaga, svo og fundargerðir aðal- og aukafunda. Fundargerðir stjórnarfunda eru sendar til stjórna svæðisfélaga. Stjórn getur þó gert kröfu um að um ákveðin mál sé farið með sem trúnaðarmál í ákveðinn tíma ef hún telur það nauðsynlegt.

11. grein.
Tekjur félagins skulu vera:
a) Gjöld aðildarfélaga til samtakanna samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
b) Tekjur samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni.
c) Hlutdeild í sjóðagjöldum.
d) Aðrar tekjur.

12. grein.
Framlögum til búfjárræktar samkvæmt búfjárræktarlögum, sem koma í hlut hrossaræktarinnar og renna til aðildarfélaga, skal eingöngu ráðstafað til kynbótastarfs og hrossaræktar. Tekjur og gjöld vegna þessa skulu skýrt aðgreind í reikningum þeirra.

13. grein.
Lagabreytingar verða aðeins gerðar á aðalfundi félagsins og þarf til þess samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn a.m.k. mánuði fyrir aðalfund og skulu þær sendar aðildarfélögum með fundarboði.

14. grein.
Félagið hættir störfum ef það er samþykkt í formi lagabreytinga á aðalfundi. Eignir félagsins skulu þá afhentar Bændasamtökum Íslands sem varðveitir þær á tryggilegan hátt þar til sambærilegt félag hefur verið stofnað að mati stjórnar Bændasamtaka Íslands, en þá skulu þessar eignir ganga til hins nýja félags.

15. grein.
Þannig samþykkt á aðalfundi Félags hrossabænda 12. nóvember 1998 og tekur þegar gildi.