Beint í efni

Hreyfing hestamanna – Könnun á möguleikum aukins formlegs samstarfs eða sameiningar

Mánudaginn 2. maí 2016 afhenti Kristinn Hugason formönnum LH, FHB og FT skýrslu með titlinum Hreyfing hestamanna – Könnun á möguleikum aukins formlegs samstarfs eða sameiningar. Lauk Kristinn þar með verkefni sem hann var ráðinn til af samtökunum og fólst í að skoða faglega og rekstrarlega kosti aukins samstarfs félaganna.

Skýrslan skiptist í fimm aðalkafla, þeir eru: Inngangur, I hluti, II hluti, Niðurstöður og Heimildaskrá. Í Inngangi er gerð grein fyrir megin inntaki verkefnisins og settar fram rannsóknaspurningar, í I-hluta eru rakin helstu atriði í sögu félaganna þriggja, lagagrunnur þeirra er greindur sem og fjárreiður, rekstur ársins 2014 er nákvæmlega sundurliðaður og metin þróun mála eins og hún birtist í gegnum ársreikninga áranna á undan. Í sérstökum undirkafla í I-hluta eru svo þessi atriði tekin saman fyrir hvert félag fyrir sig. Í II-hluta eru sjónarmið þau rakin sem fram komu um rannsóknarspurningar verkefnisins á fundum Kristins með stjórnum félaganna. Í kaflanum er jafnframt fjallað ítarlega um spurninguna: Um skipulagsform – samstarf eða ein heildarsamtök. Í Niðurstöðum er megin tillaga Kristins sett fram, rannsóknaspurningum verkefnisins svarað og sett fram hugmynd að nýju skipuriti hreyfingar hestamanna.

Niðurstöður Kristins eru þær að flest mæli með heildarsameiningu og þá bæði skipulagsleg- og fjárhagsleg rök en vegna samstarfs hreyfingarinnar við ytri aðila, einkum þá ÍSÍ, gengur sú leið ekki upp. Niðurstaða er því sú að til þess að sameining LH, FHB og FT yrði þess eðlis að fallið gæti að starfsemi ÍSÍ og þeim alþjóðlegu reglum sem starfað er þar eftir og LH þannig haldið stöðu sinni sem sérsamband innan vébanda ÍSÍ. Þá verða LH, FHB og FT að vera áfram við lýði, sinna þeim félagslegu störfum sem þau sinna nú um með viðhaldi félagskerfis síns. Jafnframt verði komið á fót nýrri rekstrareiningu (framkvæmdamiðstöð) til hliðar við þessi samtök, þ.e. þeim jafnsett og héldi hún m.a. um alla starfsemi þeirra. Þetta fyrirkomulag myndi auk þess að samræmast fyrrnefndum skilyrðum ÍSÍ hafa í sér fólgna þá megin kosti sem heildarsameining felur í sér.

Myndrænt liti skipurit hreyfingar hestamanna þannig út:

Landssamband hestamannafélagaAðili að ÍSÍ.Undireiningar eru hestamannafélög landsins.Félag hrossabændaBúgreinafélag, aðili að BÍ.Undireiningar eru deildir félagsins út um land.Félag tamningamannaEr ekki með undireiningar.Framkvæmdamiðstöð hestamennskunnar.Framkvæmda- og rekstrarfélag fyrir samtökin í heild.

Framkvæmdamiðstöð hestamennskunnar hefði með höndum allt skrifstofuhald og þjónustu fyrir félögin en auk þess myndi hún sinna þeim nýju þáttum í starfseminni sem hugsanlega yrðu teknir upp og gerð er grein fyrir í skýrslunni. En mjög mikilvægt er að bæði greinin sem slík og félagskerfið auki tekjur sínar. Sérstaklega er mikilvægt er að auka tekjur sem eiga uppruna sinn utan greinarinnar sjálfrar.

Framhald málsins er nú í höndum stjórna félaganna sem munu kynna skýrsluna og taka svo ákvörðun um næstu skref. Skýrsluna í heild er að finna hér.