Beint í efni

Árið 2021 fengu kjúklingabændur Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) til að leggja mat á kolefnislosun íslenskra kjúklinga. Í þessu verkefni var kolefnisspor íslenskra kjúklinga reiknað og bent á raunhæfar leiðir til kolefnisjöfnunar. Jafnframt var þróað reiknilíkan á Excel-formi sem gerir einstökum kjúklingabændum kleift að reikna kolefnisspor framleiðslu sinnar, þ.e.a.s. magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar við framleiðslu á hverju kílói af kjúklingi í neytendaumbúðum. Niðurstaða verkefnisins var sú að kolefnisspor greinarinnar frá „vöggu að dreifingarstöð“ var rúm 2,25 kg CO2-ígilda á hvert framleitt kg af kjúklingi í neytendaumbúðum. Þegar á heildina er litið virðist kolefnisspor íslenskra kjúklinga því vera langt neðan við heimsmeðaltalið, einnig að kolefnisspor íslenskra kjúklinga sé minna en flestra annarra dýraafurða til manneldis. Stærsti einstaki hlutinn af kolefnisspori íslenskra kjúklinga liggur í framleiðslu og flutningum á fóðri sem notað er á kjúklingabúunum, nær 60% af heildarspori. Fóðurnýting í íslenskri kjúklingarækt er hins hins vegar með því besta sem þekkist.