Hagtölur

Hagstofan birtir tölfræði yfir bústofn, uppskeru og kjötframleiðslu byggða á stjórnsýslugögnum frá Matvælastofnun og beinni gagnasöfnun frá bændum. Ár hvert birtir Matvælastofnun hagtölur í landbúnaði um búfjárfjölda. Gagnasöfnun byggir á beinni gagnasöfnun sem búfjáreigendur/umráðamenn búfjár skrá í gagnagrunn Matvælastofnunar, Bústofn. Nánari upplýsingar um hagtölur í landbúnaði er að finna á hagstofan.is og mast.is.
 
Hvert er framleiðsluvirði landbúnaðarins?
Heildarframleiðsluvirði landbúnaðar árið 2016 var 65,9 milljarðar króna. Framleiðsluverð er það verð sem framleiðandi fær í sinn hlut frá kaupanda en innifelur ekki vörutengda styrki, s.s. beingreiðslur.  Heildarútgjöld hins opinbera til landbúnaðar voru 14,9 milljarðar króna árið 2016. Það eru 1,49% af útgjöldum ríkisins.
 
Fjöldi býla og umfang starfseminnar
Tæplega 6.700 lögbýli eru skráð á Íslandi og þar af er einhver skráður til heimilis á 3.350 býlum. Bú sem framleiða vörur af ýmsu tagi voru rúmlega 3.150 árið 2015. Á þessum búum eru framleiddar búvörur á borð við mjólk, kjöt, garðyrkjuafurðir, egg og fleira. Auk þessa eru bændur sem stunda ferðaþjónustu, skógrækt og landgræðslu, hlunnindanýtingu eða sinna annarri vinnu utan bús. Fleiri lögbýli eru nýtt til landbúnaðar þótt enginn sé þar heimilisfastur. Það sem út af stendur eru eyðibýli eða jarðir sem nýttar eru til sumardvalar eða annarrar starfsemi. Um 3.900 manns voru starfandi í landbúnaði landinu (þar af 3.600 í aðalstarfi), samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, eða 2,1% fólks á vinnumarkaði. 
 
Um 10 þúsund störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti, meðal annars á bújörðum, í kjötafurðastöðvum, mjólkurvinnslum, hjá þjónustufyrirtækjum og víðar.
 
Hvað þarf að framleiða mikinn mat?
Mikil fólksfjölgun í heiminum á næstu áratugum mun kalla á aukna eftirspurn eftir mat. Reiknað er með að jarðarbúar verði um 9 milljarðar árið 2050. Árið 2012 gaf Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) út að matvælaframleiðsla þyrfti að aukast um 70% fram til ársins 2050 vegna aukins mannfjölda. Í ljósi þessarar stöðu verður varðveisla og nýting ræktunarlands sífellt mikilvægari þáttur. Til viðbótar munu loftslagsbreytingar valda verulegum breytingum á nýtingu lands á ákveðnum svæðum.

Á Íslandi er til staðar mikið ræktunarland, gnægð af vatni og mikil verkþekking. Hægt er að auka matvælaframleiðslu á Íslandi töluvert frá því sem nú er. Áhugi á staðbundinni framleiðslu og heilnæmum afurðum fer vaxandi og það skapar tækifæri fyrir bændur. Vaxtarmöguleikar í aukinni landbúnaðarframleiðslu felast meðal annars í ferðaþjónustu og auknum útflutningi búvara. 

 
 

 

Bændasamtökin birtu eftirfarandi auglýsingu í Bændablaðinu í október 2017 í tengslum við kosningar til Alþingis. Þar voru helstu hagtölur voru tíundaðar ásamt stefnumálum bænda.