Hagtölur

Mikil fólksfjölgun í heiminum á næstu áratugum mun kalla á aukna eftirspurn eftir mat. Reiknað er með að jarðarbúar verði um 9 milljarðar árið 2050. Árið 2012 gaf Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) út að matvælaframleiðsla þyrfti að aukast um 70% fram til ársins 2050 vegna aukins mannfjölda. Í ljósi þessarar stöðu verður varðveisla og nýting ræktunarlands sífellt mikilvægari þáttur. Til viðbótar munu loftslagsbreytingar valda verulegum breytingum á nýtingu lands á ákveðnum svæðum.
 
Á Íslandi er til staðar mikið ræktunarland, gnægð af vatni og mikil verkþekking. Hægt er að auka matvælaframleiðslu á Íslandi töluvert frá því sem nú er. Áhugi á staðbundinni framleiðslu og heilnæmum afurðum fer vaxandi og það skapar tækifæri fyrir bændur. Vaxtarmöguleikar í aukinni landbúnaðarframleiðslu felast meðal annars í ferðaþjónustu og auknum útflutningi búvara. 
 
Hvert er framleiðsluvirði landbúnaðarins?
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands var áætlað framleiðsluvirði landbúnaðarins um 54 milljarðar árið 2014. Af einstökum framleiðslu-greinum vegur nautgriparæktin mest eða tæp 30%, bæði mjólk og kjöt. Árið 2015 var framleiðsluvirði landbúnaðarins 57 milljarðar króna.
 
Fjöldi býla og umfang starfseminnar
Um 6.700 lögbýli eru skráð á Íslandi. 3.150 bú framleiða vörur af ýmsu tagi og um 3.900 manns er starfandi í landbúnaði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls munu um 10.000 störf  tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. 
 
Afkoma landbúnaðarins
Rekstrarafgangur landbúnaðarins fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og leigugjöld var tæplega 10,6 milljarðar króna árið 2014 samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands. Hins vegar þegar búið er að taka tillit til afskrifta, fjármagnsgjalda og leigugjalda er rekstrarafgangur tæpir 2 milljarðar. Af þessum mismun vega fjármagnsgjöldin um 4 milljarða króna samkvæmt mati Hagstofunnar.
 

Bændasamtökin birtu eftirfarandi auglýsingu í Tímariti Bændablaðsins 2017 þar sem helstu hagtölur voru tíundaðar ásamt stefnumálum bænda.