WorldFengur

WorldFengur (worldfengur.com) er upprunaættbók íslenska hestsins. WorldFengur safnar saman upplýsingum um öll íslensk hross í heiminum og er um að ræða samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF (alþjóðasamtaka eigenda íslenska hestsins). Upplýsingar eru aðgengilegar á vefnum.

WorldFengur er mikilvægur þáttur í samfélagi eigenda íslenska hestsins á heimsvísu og í dag eru um 20 þúsund áskrifendur að upprunaættbókinni. Í WorldFeng er að finna viðamiklar upplýsingar um á fimmta hundrað þúsund íslenskra hesta og eykst fjöldi þeirra á hverjum degi. WorldFengur býður upp á marga möguleika en grunnurinn heldur m.a. utan um kynbótadóma, almennar skráningar á hrossum, eigendaskráningar, örmerkingar, kynbótamat o.fl. Einnig hefur WorldFengur að geyma um 21.000 myndir af kynbótahrossum og um 300 myndbönd frá Landsmóti 2014.

Unnið er að því að koma inn myndböndum af öllum hrossum sem tóku þátt í Landsmótinu 2014 og 2012 á næstu misserum. Þá er stefnt að því að setja inn myndbönd frá Landsmóti 2016 ásamt eldri landsmótum. WorldFengur er mikilvægur þáttur í hestaheiminum og því mikilvægt tól fyrir hrossaræktina, sem og viðamikill upplýsingabrunnur fyrir alla hestaáhugamenn. 

Hægt er að panta áskrift að forritum og einnig er þjónusta við notendur forrita BÍ hjá tölvudeild alla virka daga frá kl. 8:30 – 15:00 í síma 563-0300 eða á tolvudeild[hjá]bondi.is.