29. apríl 2019

Upprunatilvísanir á matvælum skapa aukin verðmæti

Eftir Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur

Á síðustu árum hafa neytendur gert kröfu um frekari upplýsingar um uppruna og gæði landbúnaðarafurða. Uppruna- eða staðartilvísanir (e. geographical indications) eru notaðar í markaðssetningu á afurðum frá afmörkuðum landsvæðum sem hafa sérstaka eiginleika eða orðspor sem rekja má til upprunans. Skráning á afurðarheiti með uppruna- eða staðartilvísun veitir framleiðendum vernd gegn óréttmætri notkun þriðju aðila á heitinu í markaðssetningu.

Árið 2014 tók löggjöf um slíkt skráningarkerfi gildi hér á landi en við samningu laganna var m.a. tekið mið af reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins frá 2012. Vernd afurðaheita er meginstef í gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir í Evrópusambandinu og þannig er opinberlega viðurkenndum upplýsingum um uppruna og sérstöðu afurða komið á framfæri við neytendur.

Neytendur tengja upprunatilvísanir við gæði


Gæðakerfi fyrir afurðarheiti er fyrst og fremst ætlað að tryggja góða viðskiptahætti og neytendavernd en einnig hefur verið sýnt fram á að notkun upprunatilvísana geti haft í för með sér virðisauka fyrir framleiðendur. Þá helst ávinningurinn á viðkomandi svæði þar sem tengslin milli svæðisins og vörunnar verða ekki rofin. Sem dæmi hefur verð til mjólkurframleiðenda í Compté-héraðinu í Frakklandi hækkað um 10%, auk þess sem dró úr sveiflum á mjólkurverði. Kílóverð á frönskum ostum með upprunatilvísun er að meðaltali tveimur evrum hærra en á öðrum frönskum ostum. Í Toskana-héraði á Ítalíu hefur verð á ólífuolíu með upprunatilvísun hækkað um 20% frá skráningu afurðarheitisins árið 1998 til ársins 2003. Neytendur tengja vörur með upprunatilvísun við gæði og sýnt hefur verið fram á að 40% neytenda innan Evrópusambandsins eru reiðubúin til að greiða 10% hærra verð fyrir vörur með upprunatilvísun.

Við þetta má bæta að aukin áhersla á vernd og skráningu afurðaheita í fyrrgreint gæðakerfi getur haft jákvæð umhverfisáhrif á landbúnaðarframleiðslu. Rannsókn sem franska landbúnaðarráðuneytið lét framkvæma árið 2003 sýndi fram á að hefðbundnar framleiðsluaðferðir og þær kröfur sem upprunatilvísanakerfi leggur framleiðendum mjólkurvara í Compté-héraðinu á herðar, leiddi til bættra framleiðsluaðferða og minni notkunar varnarefna. Kerfið hafði þannig jákvæð áhrif á verndun graslendis og líffræðilegs fjölbreytileika á umræddu landsvæði. Þar að auki var sýnt fram á að orðspor Compté-osta jók áhuga fólks á héraðinu sjálfu sem hafði jákvæð áhrif á matvæla- og ferðamannaiðnaðinn á svæðinu. Það síðastnefnda á jafnframt við um Parma-héraðið á Ítalíu, hvar tvær af best þekktu upprunamerktu afurðum heims, Prosciutto di Parma og Parmigiano Reggiano, eru framleiddar og vínhéröðin Bordeaux og Burgundy í Frakklandi.

Framleiðendur geta aukið virði afurða

Íslenskir framleiðendur geta nú fengið formlega viðurkenningu á sérstöðu íslenskra afurða sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu og öðlast lögvernd gegn hvers konar misnotkun, eftirlíkingu, sköpun hugrenningatengsla eða gegn hvers konar öðru athæfi sem villt getur um fyrir neytendum. Á meðal mögulegs ávinnings af skráningu afurðarheitis er:

  • Sterkari samkeppnisstaða gagnvart innfluttum afurðum
  • Aukið virði afurða
  • Aukin útflutningstækifæri geta skapast
  • Sterkara vörumerki

Íslenskt lambakjöt er fyrsta og eina skráða íslenska afurðarheitið samkvæmt lögum um vernd afurðarheita. Án efa eru fleiri íslenskar matvörur sem geta fetað í slóð lambsins.

Góðar merkingar geta skapað aukið traust á vörunni og fest hana betur í sessi á mörkuðum. Það er til mikils að vinna því upprunamerkingin staðfestir sérstöðu sem enginn getur tekið frá okkur og erfitt er að líkja eftir.

 

/Höfundur er lögfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands og Icelandic Lamb.

/Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 29. apríl 2019.