09. janúar 2014

Undantekningalaust ætti að merkja innfluttar búvörur eftir uppruna

Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, reifar afdráttarlausar skoðanir bænda á upprunamerkingum á búvörum í nýju Bændablaði. Hann leggur áherslu á að neytendur séu upplýstir um það hvaðan maturinn kemur og segir meðal annars:

"Undantekningalaust ætti að merkja innfluttar búvörur eftir uppruna. Það er á ábyrgð þeirra fyrirtækja sem markaðssetja, selja eða nýta þær við framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Í þessu máli eru bændur og neytendur á sama báti. Það er skýlaus réttur þeirra sem kaupa mat að vita hvar hann er framleiddur."

Leiðarinn fylgir hér á eftir í heild sinni:

Gleðilegt nýár, kæru lesendur, og þökk fyrir liðin ár. Árið 2014 hefur byrjað með nokkrum hvelli í landbúnaðinum þó að það snerti í raun ekki afurðirnar sem íslenskir bændur framleiða, heldur þær sem fluttar eru inn. Rætt hefur verið um kjúklinga, smjör til ostagerðar og nú síðast svínakjöt. Það er fagnaðarefni að eftirspurn eftir búvörum hefur aukist verulega á skömmum tíma, jafnvel svo að ekki hefur verið hægt að sinna eftirspurninni með innlendri framleiðslu. Fyrir því eru ýmsar ástæður, bæði náttúrulegar og markaðslegar, eins og fram hefur komið. Það er og verður metnaðarmál íslenskra bænda að framleiða eins mikið af hollum og góðum búvörum og hægt er hér á landi. Enda hafa kannanir sýnt að neytendur treysta íslenskum bændum og afurðunum sem þeir framleiða. Því trausti má ekki bregðast.

Bændasamtökin telja samt sem áður að innflutningur á búvörum til að sinna eftirspurn sem innlendir framleiðendur geta ekki uppfyllt sé eðlilegur hlutur – ef farið er að gildandi reglum. Þau gera hins vegar þá kröfu að neytendur séu upplýstir um hvaðan maturinn kemur.

Undantekningalaust ætti að merkja innfluttar búvörur eftir uppruna. Það er á ábyrgð þeirra fyrirtækja sem markaðssetja, selja eða nýta þær við framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Í þessu máli eru bændur og neytendur á sama báti. Það er skýlaus réttur þeirra sem kaupa mat að vita hvar hann er framleiddur. Bændasamtökin hvetja neytendur til að láta sig þessi mál varða og kalla eftir upplýsingum um uppruna, hvort heldur sem er í verslunum, á veitingastöðum eða í mötuneytum. Það er mismunandi eftir vöruflokkum hvort það er lagalega skylt að merkja vörur eða hráefni eftir uppruna. Til dæmis þarf að merkja uppruna nautakjöts og grænmetis en ekki annars kjöts og yfirleitt þarf ekki að merkja uppruna hráefnis eins og í unnum matvörum. Án tillits til þess er merking einfaldlega eðlileg krafa. Sala á matvöru, innlendri eða erlendri, án skýrrar upprunamerkingar, til dæmis undir samheitamerkjum smásölukeðju gefur smásöluaðilum, óeðlilega yfirburðastöðu umfram neytendur og bændur.

Um árabil hafa Bændasamtökin barist fyrir því að nota þjóðfánann til upprunamerkinga á framleiðsluvörur íslenskra bænda. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingar á fánalögum þar sem framleiðendum verður gert kleift að nota fánann til aðgreiningar frá erlendri framleiðslu. Það er ástæða til að hvetja þingheim til að ljúka þessu brýna máli fljótt og vel. Þá er ekki eftir neinu að bíða að taka strax upp reglugerð um upprunamerkingar á kjöti sem eiga að taka á gildi hér á landi í lok þessa árs samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Bændur framleiða úrvalsafurðir
Íslenskur landbúnaður hefur náð miklum árangri á undanförnum árum og framleiðslan hefur aukist. Mjólkurframleiðslan hefur þróast hratt, loðdýrabændur hafa náð mjög góðum árangri bæði hvað varðar verð og gæði, útflutningur á lambakjöti gengur vel auk þess sem innlend eftirspurn hefur aukist verulega, eins og að framan greinir. Aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru einstakar, þó að þær geti líka verið óblíðar. Við eigum okkar einstöku náttúru, gott landrými og gnægð af hreinu vatni. Við notum einstaklega lítið af sýklalyfjum og engin vaxtarhormón. Við erum líka svo heppin að hér eru einstaklega fáir dýrasjúkdómar. Sem dæmi má nefna að þegar þegar skoðaðir eru 120 algengir dýrasjúkdómar í Evrópu hafa 105 aldrei komið upp hér, enda eru bústofnar okkar viðkvæmir. Jafnvel eru dæmi um að hætt sé að fylgjast með dýrasjúkdómum erlendis sem yrðu okkur mjög skeinuhættir.

Tollverndin hefur sinn tilgang og ber að virða
Tollvernd er hluti landbúnaðarstefnunnar sem landbúnaðurinn starfar eftir. Innflutningur er að jafnaði heimill, en tollar eru lagðir á til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar búvöruframleiðslu gagnvart innflutningi og geta lagst á rúm 37% af þeim tollalínum sem skilgreindar eru sem landbúnaðarvörur í tollskrá. Mikið af landbúnaðarvörum er flutt inn tollfrjálst, s.s. allar kornvörur, ávextir, pasta, hrísgrjón, sykur og margt fleira. Þessi tollvernd er vissulega til að vernda innlenda starfsemi, ekki síst í hinum dreifðari byggðum landsins. Enda tengjast fjölmörg störf landbúnaði bæði beint og óbeint – auk þess sem hann skapar mikilvægan gjaldeyri til að flytja inn margs konar neysluvörur. Áætlað hefur verið að við flytjum nú þegar inn um helming þeirrar matvæla sem við neytum og ef auka ætti það enn þyrftum við afla gjaldeyris til þess, með því að flytja eitthvað annað út.

Umræða um að kasta tollverndinni fyrir róða og leyfa frjálsan innflutning á erlendum búvörum er því marki brennd að í henni er æði oft holur hljómur. Á sama tíma og forsvarsmenn verslunarinnar fordæma tollvernd á búvörum heyrast andvörp og kveinstafir úr sömu herbúðum þegar rætt er um tollfrjálsan innflutning á póstsendingum frá vefverslunum eBay eða Amazon þar sem upphæðir eru lágar. Tvískinnungur þessara aðila er algjör og umhugsunarefni fyrir okkur sem búum í landinu. Það hefði miklar og afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir landbúnaðinn og atvinnu í hinum dreifðu byggðum að umbylta innflutningsvernd búvara. Það er ábyrgðarhluti að tala um tollverndina á þeim nótum að hún sé óþörf og baggi á þjóðinni.

Bændur vilja ræða um stefnumörkun í landbúnaði
Stjórnvöld á hverjum tíma móta landbúnaðarstefnuna í gegnum búvörusamninga við bændur, búvörulög, tollalög og margvíslega reglusetningu. Hún hefur breyst verulega á síðustu áratugum, þrátt fyrir að margir telji hið gagnstæða. Núverandi ríkisstjórn hefur sagt í stefnuyfirlýsingu sinni að hugur hennar standi til þess að efla innlenda matvælaframleiðslu. Sú sem á undan henni sat setti líka fram stefnu þess efnis að auka þyrfti hlut innlendrar matvæla­framleiðslu í neyslu landsmanna. Ef vilji er til breytinga er eðlilegt að ræða allar tillögur, en það skiptir máli að alltaf sé skoðað hvað þær þýða raunverulega. Það er skýr vilji hjá bændum til þess að fara yfir allt starfsumhverfi stéttarinnar og meta hvað hefur tekist vel og hvað miður. En spurningin er líka hvort ekki sé einfaldlega rétt að stjórnvöld kalli fulltrúa bænda, afurðastöðva og neytenda að borðinu – frá haga til maga – og ræði opið hvernig starfsumhverfið ætti að vera til framtíðar. Það mun ekki standa á bændum að taka þátt í þeirri umræðu, okkur öllum til heilla. /SSS