01. júní 2015

Undanþágur eina úrræðið þrátt fyrir neyðarástand

Bændasamtökunum barst svar þann 21. maí við bréfi sem sent var til ráðherra þann 18. maí þar sem óskað var eftir að ráðherra tryggi að dýralæknar verði við störf hjá Matvælastofnun í því skyni að bændum verði tryggð eðlileg starfsskilyrði og að velferð dýra þeirra verði virt, eða að ríkið taki yfir þær skyldur sem kveðið er á um í lögum um velferð dýra og lagðar eru á bændur.


Svar ráðherra var á þá leið að hann gæti ekki gripið inn í með því að tryggja að dýrlæknar verði við störf hjá Matvælastofnun í því skyni að bændum verði tryggð eðlileg starfsskilyrði. Hann er þó meðvitaður og telur afar brýnt að velferð dýra samkvæmt lögum verði tryggð en treystir því jafnframt að rúmar undanþágur verði veittar til slátrunar á alifuglum og svínum til að unnt sé að tryggja velferð dýra á búunum.


Þann 28. maí kom svarbréf frá Matvælastofnun vegna þeirrar kröfu frá Bændasamtökunum að stofnunin fái annan dýralækni en héraðsdýralækni til að sinna kjötskoðun í sláturhúsum til að afstýra því neyðarástandi sem nú stendur yfir. Í bréfinu kemur fram að það sé í andstöðu við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna að fara þá leið því óheimilt sé að afstýra verkfallsaðgerðum með því að leita til annarra starfsmanna eða verktaka og fela þeim þau störf sem starfsmenn í verkfalli sinna. Eina úrræðið sem MAST hefur er að sækja um undanþágu til að kalla starfsmenn stofnunarinnar til starfa til að afstýra neyðarástandi, í framhaldinu sé farið eftir því að undanþágunefnd dýralæknafélaga Íslands og ríkisins fái að kalla hlutaðeigandi starfsmenn stofnunarinnar til starfa og sendir viðkomandi umsókn með þeirri beiðni máli sínu til stuðnings.