12. ágúst 2019

Umsögn um drög að nýju tollafrumvarpi

Bændasamtökin og Landssamtök sauðfjárbænda hafa sent frá sér sameiginlega umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um úthlutun tollkvóta. 

Umsögnin er svohljóðandi:

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta), mál nr. S-186/2019.

Tilv.   201908-0001

I

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta), mál nr. S-186/2019, voru birt á samráðsgátt stjórnarráðsins 12. júlí sl. Frestur var veittur til 8. ágúst. Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda hafa farið yfir efni frumvarpsins og hér eftir fer sameiginleg umsögn samtakanna.

II

Bændasamtökin hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að skýra úthlutun á tollkvótum til ráðstöfunar og fagna því að umgjörð og framkvæmd tollverndar skuli einfölduð og ákvarðanir í þeim málum verði framvegis gagnsæjar. Afar mikilvægt er að stjórnvöld móti langtímastefnu þegar kemur að tollvernd í landbúnaði. Á meðal galla sem núgildandi fyrirkomulag hefur í för með sér eru takmarkaðir möguleikar til mats á raunverulegri birgðastöðu og skortur á gagnsæi þegar tollvernd hefur verið felld niður. Samtökin hafa í umsögnum við tengd mál tekið fram að skýra þurfi verklag og jafnframt að nauðsynlegt sé að styðjast við raungögn og nákvæmar tölur. Niðurfelling tolla verði að taka mið af raunverulegum skorti og tímabil innflutnings þurfi að vera skýrt skilgreint. Endurskoða þurfi tollvernd í landbúnaði heildstætt, afmarka með skýrum hætti til hvaða afurða tollverndin á að ná og enn fremur að gera kröfu til þess að hún skili árangri þar sem henni er beitt. Hún jafni samkeppnisstöðu m.v. þær framleiðsluaðstæður sem eru fyrir hendi.

Í núverandi stöðu er raunin önnur og núverandi tollskrá að stórum hluta úrelt. Sem dæmi er lægri tollur á ferskum kjúklingi heldur en frosnum, öfugt við verð viðkomandi afurða. Þá eru einnig dæmi um að vara sem ætti að bera hærri toll sé flutt inn á tollskrárnúmeri sem ber lágan toll einfaldlega vegna þess að ekki er til tollskrárnúmer fyrir viðkomandi vöru. Fara þarf yfir álagningu tolla í heild og tryggja að þeir skili tilætluðum árangri. Þá benda umsagnaraðilar á þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna (149. lögþ.,þskj. 1924, 957. mál) sem samþykkt var á Alþingi 19. júní sl. Í 14. lið áætlunarinnar kemur fram að könnuð verði þróun tollverndar og greind staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og í 16. lið segir að tollskrá fyrir landbúnaðarvörur verði endurskoðuð. Mikilvægt er að ljúka þessum verkefnum áður eða samhliða afgreiðslu frumvarpsins.

Umsagnaraðilar telja að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu geti mögulega leitt til betri tollverndar en nú er, að því gefnu að þau tímabil sem miðað er við séu ásættanleg. Eðlilegt er að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu eða allt að fjórum sinnum, í stað einu sinni, til þess að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað. Þá taka samtökin undir þær tillögur að dagsetningum og tímabilum varðandi tollvernd á útiræktuðum garðávöxtum, sem fram koma í umsögn frá Sambandi garðyrkjubænda, enda byggja þær tillögur á upplýsingum frá framleiðendum og reynslu undanfarinna ára.

III

Tilgangur og markmið frumvarpsins er m.a. að stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Af lestri frumvarpsins má sjá að gengið er út frá því að neytendur njóti tollalækkana. Í almennum athugasemdum í greinargerð segir að ætlunin sé að bæta hag neytenda með því að þeim bjóðist lægra verð vegna lægri tolla á tilteknar vörur. Það er staðreynd að neytendur hafa ekki alltaf notið tollalækkana. Þar fyrir utan er mikilvægt að tollvernd hafi það að markmiði að þjóna hagsmunum hvort tveggja neytenda og framleiðenda til lengri tíma. Ef framleiðsla leggst niður á ákveðnum tegundum hérlendis og einungis er um innfluttar vörur að ræða á markaði skerðist val neytenda. Reynslan sýnir okkur einnig að verð á innfluttum afurðum er ekki alltaf lægra í þeim tilvikum sem innlendrar framleiðslu nýtur ekki við í samkeppni við innfluttu vörurnar. Það er ljóst að neytendur tapa á einokun þegar litið er til lengri tíma. Eins og fram kemur í umsögn Sambands garðyrkjubænda er fjöldi ræktaðra tegunda í garðyrkju hér á landi beinlínis í hættu að leggjast af.

IV

Umsagnaraðilar telja nauðsynlegt að bæta framkvæmd tollaeftirlits og umgjörðina sem um það gildir en dæmi eru um verulega ágalla á því sviði. Eftirlit með innflutningi þarf að bæta og raunveruleg vöruskoðun þarf að fara fram samhliða skjalaskoðun. Þetta hafa samtökin ítrekað bent á í umsögnum um tengd mál.

Einnig er bent á að svo virðist sem markaðslögmálum sé aðeins ætlað að ráða þegar kemur að offramboði á íslenskum landbúnaðarvörum, þegar framboð er takmarkað er óhætt að segja að það myndist sjaldan eða aldrei seljendamarkaður. 

Að síðustu gera umsagnaraðilar athugasemd við knappan frest til að skila inn umsögn og þar að auki að málið sé í umsagnarferli á háannatíma í landbúnaði.