26. júlí 2019

Umsögn BÍ og LS um fyrirhugaðan innflutning á lambahryggjum

Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda fengu send drög að reglugerð um úthlutun á opnum tollkvótum á lambahryggjum þann 23. júlí sl., veittur var fjögurra daga frestur til að gera athugasemdir. Hér eftir fer sameiginleg umsögn samtakanna:

Ástæða hinnar fyrirætluðu úthlutun eru ábendingar til nefndar um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum um vöntun/fyrirsjáanlega vöntun á lambahryggjum. Vísað er til gagna sem aflað var í kjölfarið í samræmi við 3. mgr. 87.gr. búvörulaga nr. 99/1993.

Umsagnaraðilar telja í fyrsta lagi skort á skýrum forsendum fyrir tillögunni eins og hún liggur fyrir. Fram þurfa að koma upplýsingar um hversu mikið magn er til nú þegar, hversu mikið magn vantar og hvernig verðþróunin í heildsölu hefur verið. Þetta eru allt lykilspurningar og svör við þeim þurfa að fylgja í greinargerð með tillögunni.

Í öðru lagi gera umsagnaraðilar verulegar athugasemdir við það að það eru engin takmörk á því magni sem flytja má inn. Þannig getur söluaðili ákveðið að flytja inn á þessu tímabili hryggi sem hann hyggst selja í heilt ár eftir innflutning. Samtökin telja algjört grundvallaratriði að magnið sé tengt þeim skorti sem er talinn vera.

Í þriðja lagi þurfa að vera markvissari forsendur fyrir upphæð magntolls, þ.e. 172 kr/kg . Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur verið verðhjöðnun í smásölu á lambakjöti síðan 2015 og hafa þarf í huga að innflutningurinn raski ekki verðmyndun á innanlandsmarkaði.

Umsögn BÍ & LS - pdf