07. mars 2019

Umsagnir um frumvarpsdrög sem heimila innflutning á ófrystu kjöti

Á sjöunda tug umsagna við frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, eru nú aðgengilegar á samráðsgátt stjórnvalda.

Meðal þeirra sem senda inn umsagnir eru Bændasamtök Íslands, Samtök atvinnulífsins, sveitarfélög um allt land, Auðhumla, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda, Matfugl, Matís, Samtök mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Félag svínabænda, Dýralæknafélag Íslands, Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Samband garðyrkjubænda, Samtök ungra bænda og nokkur fjöldi einstaklinga.

Bændasamtökin leggjast alfarið gegn samþykkt frumvarpsins í sinni umsögn.

Bændasamtökin lögðu til með bréfi sem sent var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 23. febrúar 2018 að leitað yrði samninga við Evrópusambandið vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017, annars vegar um að óskað yrði undanþágu frá niðurstöðunni, en til vara að þriggja til fimm ára aðlögunartími fengist. Fram hefur komið að einhverjar viðræður hafi átt sér stað en erfiðlega hefur gengið að fá aðgang að ýmsum gögnum sem tengjast málinu, þ.á.m. fundargerðir frá fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og utanríkismálastjóra ESB, Federica Mogherini. Samtökin hafa efasemdir um að málið hafi verið sótt af einhverri alvöru gagnvart ESB í meintum viðræðum. 

Bændasamtökin gagnrýna jafnframt að samráð hafi ekki verið haft á fyrri stigum við samningsaðila í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Þar er átt við samráð um innihald og útfærslu í aðgerðaáætlun ráðherra sem birt er með frumvarpinu. Samtökin telja þar að auki óeðlilegt að málið hafi verið lokað á samráðsgátt stjórnarráðsins, þ.e. að umsagnir birtust ekki um leið og þær voru sendar inn.

Sjá umsögn BÍ.