20. mars 2014

Um fjármál Bændasamtaka Íslands

Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Verkefni í gegnum búnaðarlagasamning eru lögbundin en samninginn má lesa í heild sinni á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ríkisendurskoðun fær reikninga BÍ til skoðunar ár hvert.

Um áramótin 2012/2013 var stofnað nýtt félag um ráðgjöf í landbúnaði, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. (RML) Félagið er að fullu í eigu Bændasamtaka Íslands. Þangað fluttust starfsmenn frá BÍ sem áður sinntu ráðgjöf í landbúnaði.

Samkvæmt fjárlögum ríkisins 2013 (sjá fjarlog.is) fóru 558,5 mkr. í liði sem tilheyra búnaðarlagasamningi. Af þeirri upphæð fóru 338,0 mkr. í ráðgjafarþjónustu til bænda sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökin og búnaðarsamböndin sinna um allt land. 87,0 mkr. fóru í búfjárræktarstarf, en undir það falla meðal annars kúasæðingar og kynbótaskýrsluhald, 63,5 mkr. fóru til kornræktar, hreinsunar affallsskurða og lífrænnar aðlögunar og 70,0 mkr. runnu til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins (FL). Þessar fjárhæðir, aðrar en greiðslan til FL, voru greiddar til Bændasamtakanna sem ráðstafaði þeim til aðila eins og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og búnaðarsambandanna.

Í hvað fóru fjármunirnir frá ríkinu?
Fjárframlög samkvæmt búnaðarlagasamningi 2013 skiptust í eftirtalin verkefni:
- 87,0 í búfjárræktarstarf (kynbótaskýrsluhald, kúasæðingar, ræktunarstöðvar, gagnagrunnar o.fl.)
- 338,0 mkr. í ráðgjafarþjónustu/leiðbeiningastarfsemi (ráðgjöf til bænda, áætlanagerð o.fl.). Af þessari upphæð runnu hins vegar u.þ.b. 110 mkr. beint til þess að greiða lífeyrishækkanir vegna fyrrverandi starfsmanna búnaðarsambandanna og Búnaðarfélags Íslands (sem var ríkisstofnun).
- 63,5 mkr. í kornrækt, hreinsun affallsskurða og lífræna aðlögun.

Auk verkefna skv. búnaðarlagasamningi önnuðust Bændasamtökin ýmis verkefni fyrir ríkisvaldið og MAST skv. sérstökum samningum, s.s. greiðslumiðlun vegna búvörusamninga, hugbúnaðargerð og umsýslu með framleiðslutengdum sjóðum. Árið 2013 námu greiðslur til BÍ fyrir þessi verkefni alls 20,0 mkr.

Tekjugrunnur Bændasamtakanna
Heildartekjur BÍ á árinu 2013 voru 515,0 mkr. Þær skiptust með eftirfarandi hætti:
Framlög skv. búnaðarlögum 88,3 mkr.
Búnaðargjald frá bændum 129,8 mkr.
Skýrsluvélaþjónusta og forrit 63,8 mkr.
Sértekjur sviða – útseld vinna o.fl. 106,8 mkr.
Bændablaðið og önnur útgáfustarfsemi 77,7 mkr.
Útleiga húsnæðis og fjármunatekjur 48,6 mkr.