20. desember 2019

Stjórn BÍ ályktar um aðgerðir og áherslur í kjölfar óveðurs

Mynd / Guðrún Lárusdóttir í Keldudal Mynd / Guðrún Lárusdóttir í Keldudal

Stjórn Bændasamtakanna kom saman á fundi í vikunni og ályktaði eftirfarandi vegna óveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku:

„Stjórn BÍ harmar það tjón sem bændur urðu fyrir í óveðrinu sem gekk yfir landið fyrr í þessum mánuði.  Stjórnin þakkar björgunarsveitum landsins og öðrum viðbragðsaðilum fyrir ómetanlegt framlag við erfiðar aðstæður.

Stjórnin leggur áherslu á eftirfarandi í framhaldinu:

Huga verður að því að þeir sem hafa orðið fyrir andlegum áföllum fái aðstoð við að vinna úr því. Aðstæður sem þessar reyna verulega á, andlega og líkamlega.  Það tekur á að missa skepnur í aðstæðum sem þessum og að vera innilokaður jafnvel sólarhringum saman, án rafmagns, hita eða nokkurra fjarskipta.

Fara þarf yfir hvort Bjargráðasjóður eða aðrar opinberar áfallatryggingar bæti tjón vegna afurðamissis á kúabúum, gripatjón, til dæmis hross sem fórust sem og tjón á girðingum. Ljóst er að á einstöku bæjum er gríðarlegt tjón af þessum sökum sem almennar tryggingar bæta ekki. Minnt er á fordæmi er fyrir að Bjargráðasjóður hefur fengið fjármagn til að mæta sambærilegum aðstæðum.

Bæta þarf verulega afhendingaröryggi á rafmagni og hraða eins og kostur er að koma dreifilínum rafmagns í jörð. Endurmeta þarf hvar er nauðsynlegt að varaaflsstöðvar séu fyrir hendi og tryggja eldsneytisbirgðir fyrir þær í skilgreindan tíma.

Fjarskiptakerfi þurfa að þola að vera án rafmagns tímabundið og styrkja þarf GSM-símkerfið. Skoða þarf hvort ekki sé rétt að GSM-kerfið sé öryggiskerfi íbúanna bæði til að þeir geti náð sambandi við umheiminn og einnig að hægt sé að ná í þá sem lenda í þessu aðstæðum. Það er óásættanlegt að öll fjarskipti falli niður í svo langan tíma eins og gerðist nú.

Bændur þurfa einnig að meta hver og einn hvernig þeir eru í stakk búnir til að mæta svona aðstæðum. Það er öllum ljóst að það eiga eftir að koma fleiri slík veður og einnig getur ýmislegt annað komið upp á sem truflar afhendingu á rafmagni.

Aldrei verður hægt að koma í veg fyrir það, en innviðir samfélagsins verða að þola það betur en þeir gerðu í þetta sinn.“