14. júní 2019

Sterk staða sem hægt er að styrkja

Matvælastofnun birti í vikunni niðurstöður skimunar fyrir algengustu sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði. Tilgangur skimunarinnar var að kanna stöðu sjúkdómsvaldandi örvera í afurðum þegar neytandinn fær þær í hendur og fór því sýnatakan fram í verslunum. Eins og fram kemur í skýrslunni náði skimunin til helstu sjúkdómsvaldandi örvera sem líklegt er að finna í kjöti þ.e.  salmonellu í svínakjöti, kampýlóbakter  og salmonellu í kjúklingakjöti og shigatoxínmyndandi E.coli (STEC) í nautgripa- og kindakjöti. Bændur fagna því að Matvælastofnun vinni skimanir sem þessar enda veita þær mikilvægar upplýsingar um stöðu kjötframleiðslu á Íslandi, bæði það sem vel er gert og ekki síður hvar eru tækifæri til úrbóta.

Sterk staða kjúklinga- og svínakjöts staðfest

Skimunin leiddi í ljós gríðarsterka stöðu gagnvart salmonellu og kampýlóbakter  í kjúklinga- og svínakjöti á Íslandi, en hvorki fannst salmonella né kampýlóbakter  í íslensku kjöti við skimunina. Til að átta sig betur á stöðu íslenskrar kjötframleiðslu væri áhugavert að skoða þann samanburð við önnur lönd. Í skýrslunni kemur fram að salmonella og  kampýlóbakter eru tvær algengusta orsakir iðrasýkinga í fólki í Evrópu, en slíkar sýkingar eru mjög fátíðar hér á landi. Munar þar mest um fyrirbyggjandi aðgerðir á svína- og kjúklingabúum og við slátrun og vinnslu þeirra afurða.

Niðurstöður skimunarinnar leiddu einnig í ljós að STEC finnst á kjöti af sauðfé og nautgripum en slíkar skimanir á kjötvörum í verslunum hafa ekki verið framkvæmdar áður hérlendis. Þessar bakteríur eru hluti af náttúrulegri örveruflóru nautgripa og sauðfjár og berast  með sláturgripum inn í sláturhús. Kjöt getur mengast á yfirborði við slátrun og meðhöndlun og því þótti ástæða til að skoða hvort STEC finnst á kjöti þessara dýra á markaði. Einnig var kannað hvort fimm algengustu sermisgerðir STEC væru til staðar í jákvæðum sýnum og fundust þrjár þeirra, en ekki sú sem veldur algengustu hópsýkingum af völdum E. coli í heiminum sem er mjög jákvætt. 

Tíðni sýkinga með því lægsta í Evrópu

Ljóst er að frekari rannsókna er þörf til að geta betur áttað sig á því hvernig og hvenær í vinnsluferlinu bakteríurnar berast á kjötið. Þannig má skerpa  á fyrirbyggjandi aðgerðum heima á búunum, í sláturhúsum og kjötvinnslum eins og bent er á í skýrslunni. Það væri einnig í þessu tilfelli upplýsandi að hafa samanburð við aðrar þjóðir en iðrasýkingar af völdum STEC eru afar fátíðar hér á landi í samanburði við önnur lönd og er tíðni þeirra hér á landi til dæmis með því lægsta sem gerist í Evrópu þrátt fyrir algengi þeirra á kjöti við skimunina. Frekari rannsóknir gætu einnig leitt í ljós hvort bakteríurnar eru, í einhverjum tilfellum, til staðar í sjúkdómsvaldandi magni en þær niðurstöður sem nú eru kynntar sýna eingöngu hvort þær finnast eða ekki. Þetta eru upplýsingar sem mikilvægt er að fá fram til þess íslenskir bændur og kjötvinnslur geti staðið sig enn betur í að tryggja heilnæmi íslenskra kjötafurða.

Tækifæri til að gera sterka stöðu enn sterkari

Það skiptir íslenska bændur miklu máli að hlutirnir séu í lagi og það hefur verið metnaður okkar að skila af okkur hágæða vöru alla leið til neytenda, ekki síst með tilliti til hreinleika og heilbrigðis afurða.

Árangur þess endurspeglast í því að iðrasýkingar af völdum salmonellu, kampýlóbakter  og STEC hér á landi eru hlutfallslega mjög sjaldgæfar. Auk þess stendur íslenskur landbúnaður í fremstu röð þegar kemur að því að lágmarka notkun sýklalyfja í búfénaði, en að mati alþjóðlegra vísindamanna veldur mikil notkun sýklalyfja í búfénaði aukinni hættu á sýklalyfjaónæmi sem er ein helsta heilsufarsógn sem ríki heims glíma við. Það er því óumdeilt að staða íslensks landbúnaður er á margan hátt mjög sterk. Íslenskir bændur vilja þó alltaf gera betur og bændur munu beita sér fyrir því að niðurstöðu skimunar Matvælastofnunar verði nýttar til að gera enn betur.

Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, og Guðrún Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands.