14. júní 2018

Skipað í starfshóp um úthlutun tollkvóta

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri BÍ, er fulltrúi Bændasamtakanna í nýskipuðum starfshópi landbúnaðarráðherra um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta. Greint er frá skipun fimm manna hóps á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Tilefnið er tollasamningar Íslands og Evrópusambandsins sem tóku gildi 1. maí sl. en samkvæmt þeim stækka tollkvótar til muna, einkum á kjöti og ostum. Innflutningur innan þessara tollkvóta er tollfrjáls og verður aukinn í skrefum til ársins 2021.

„Hlutverk starfshópsins er að endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Starfshópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en 1. nóvember 2018 og skila þá skýrslu með tillögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

  • Óli Björn Kárason, alþingismaður, formaður
  • Arnar Freyr Einarsson, hagfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
  • Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands
  • Tryggvi Másson, sérfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins