20. mars 2014

Skattfé ekki notað við fjárhagslega endurskipulagningu Hótels Sögu ehf.

Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna rangra fullyrðinga í fréttaflutningi um fjárhagslega endurskipulagningu Hótels Sögu ehf.

„Samkomulag við Arion banka, stærsta lánveitanda Hótels Sögu ehf., um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins var undirritað í árslok 2013. Samkomulagið tryggði rekstrarhæfi félagsins og styrkti eiginfjárstöðu þess.

Viðræður milli Arion banka og Bændasamtaka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu Hótels Sögu ehf. stóðu yfir frá árinu 2010 en í kjölfar efnahagshrunsins hækkuðu skuldir og afborganir af lánum félagsins reyndust íþyngjandi og rekstrinum ofviða.

Fjárhagsleg endurskipulagning Hótels Sögu ehf. felur í meginatriðum í sér að:

- Hlutafé Hótels Sögu ehf. var hækkað um 250 milljónir króna. Bændasamtök Íslands skráðu sig fyrir öllum hlutunum.

- Skuldir félagsins lækkuðu vegna afskrifta bæði lánveitenda og Bændasamtaka Íslands auk þess sem áhvílandi lánum var skuldbreytt.

- Hótel Saga ehf. og Bændasamtök Íslands framseldu Arion banka öll hlutabréf í Hóteli Íslandi ehf. Arion banki seldi síðar fasteign Hótels Íslands ehf. við Ármúla 9 í Reykjavík.
Framangreinda hlutafjárhækkun fjármögnuðu Bændasamtök Íslands að stærstum hluta með lánsfé, eða 165 milljónir króna, og að hluta með sjálfsaflafé, eða 85 milljónir króna. Þriðja hæð Bændahallarinnar við Hagatorg er séreign Bændasamtaka Íslands og var hluti hennar veðsettur vegna þessarar fjármögnunar.


Fullyrðingar um að skattfé hafi verið notað við fjárhagslega endurskipulagningu Hótels Sögu ehf. eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Fjármagn sem merkt er Bændasamtökum Íslands á fjárlögum vegna lögbundinna verkefna var ekki og hefur aldrei verið notað í tengslum við eignaumsýslu samtakanna. Allt þetta fjármagn fer í verkefni samkvæmt búnaðarlagasamningi.


Fjárframlög samkvæmt búnaðarlagasamningi 2013 skiptust í eftirtalin verkefni:

· 87,0 milljónir í búfjárræktarstarf, þ.e. til kynbótaskýrsluhalds, kúasæðinga og ræktunarstöðva.

· 338,0 milljónir í ráðgjafarþjónustu til bænda.

· 60,0 milljónir í styrki til bænda vegna kornræktar, hreinsunar affallsskurða auk 3,5 milljóna til bænda vegna aðlögunar að lífrænni ræktun.


Þessar upplýsingar koma allar fram í ársreikningi Bændasamtaka Íslands fyrir árið 2013. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með fjárreiðum vegna þeirra verkefna sem Bændasamtök Íslands annast fyrir ríkið. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fær árlega sundurliðaðan ársreikning samtakanna ásamt skýringum á rekstri samtakanna.

Með þessari fjárhagslegu endurskipulagningu sem nú hefur verið samið um hefur skuldastaða Hótels Sögu ehf. verið aðlöguð greiðsluþoli félagsins, rekstrarhæfi tryggt og eiginfjárstaða félagsins orðin jákvæð.

Reykjavík, 20. mars 2014,
Sindri Sigurgeirsson,
formaður Bændasamtaka Íslands.