19. október 2018

Ríkið tekur yfir gamlar lífeyrisskuldbindingar

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Mynd / ANR Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna. Mynd / ANR

Þegar Bændasamtök Íslands voru stofnuð árið 1995 með sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda ábyrgðist ríkissjóður skuldbindingar Bændasamtaka Íslands í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Bændasamtökin hafa um árabil óskað eftir því að lífeyrisskuldbindingarnar yrðu færðar alfarið yfir til ríkisins enda arfur frá gamalli tíð þegar starfsfólk Búnaðarfélagsins, Stéttarsambandsins, Framleiðsluráðs og búnaðarsambandanna greiddi í B-deildina. Frá því að Bændasamtökin voru stofnuð hafa lífeyrisskuldbindingar verið færðar á gjaldahlið þeirra en fjármögnunin komið úr búnaðarlagasamningi og síðar rammasamningi.

Nú hefur verið undirritað samkomulag sem kveður á um að frá og með næstu áramótum muni ríkið taka yfir lífeyrisskuldbindingar Bændasamtakanna að upphæð 172 milljónir króna á ári. Samkvæmt samningnum mun framlag ríkisins vegna búvörusamninga lækka árlega um samsvarandi fjárhæð frá og með árinu 2019.

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, segir undirritunina þýðingarmikla fyrir samtök bænda en árlegar lífeyrishækkanir vegna skuldbindinganna hafa verið fjármagnaðar af framlögum rammasamnings milli bænda og ríkisvalds. „Bændasamtökin hafa um árabil leitað samninga um breytingar á ábyrgð þessara skuldbindinga. Þetta snýst um þá starfsmenn félaga og stofnana í landbúnaði sem töldust opinber eða hálfopinber og eiga lífeyrisréttindi í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er svo sannarlega gleðiefni að þessu sé nú loksins lokið.“