28. desember 2018

Nýjar reglugerðir taka gildi 1. janúar

Fjórar nýjar reglugerðir um stuðning við nautgriparækt, sauðfjárrækt, garðyrkju og landbúnað taka gildi 1. janúar. Er þetta í samræmi við ákvæði búvörusamninga frá 2016 og eru reglugerðirnar endurskoðaðar árlega. Í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins kemur framað reglugerðirnar séu að mestu leyti samhljóða reglugerðum sem að giltu um sama efni árið 2018 og breytingar flestar smávægilegar.

Helsta breytingin er að í reglugerð um stuðning við nautgriparækt er nú kveðið á um þak á magn greiðslumarks sem að framleiðandi getur óskað eftir á hverjum markaði og miðast það við 100.000 lítra. "Eftirspurn eftir greiðslumarki í mjólk er mikil og á síðustu mörkuðum hafa borist umsóknir um óraunhæft magn sem hefur gert það að verkum að minna var eftir af greiðslumarki fyrir þá sem að bjóða í það magn sem þeir raunverulega þurfa til að sinna starfsemi sinni. Jafnframt er gerð sú breyting að innlausnardögum er fækkað og verða þeir nú þrír á ári. Hver framleiðandi getur því að hámarki óskað eftir 300.000 lítrum yfir árið," segir á vef ráðuneytisins.

Endurskoðun reglugerðanna var unnin í ráðuneytinu í samstarfi við Búnaðarstofu Matvælastofnunar og Bændasamtök Íslands. Drög að reglugerðunum voru sendar til umsagnar til hagsmunaaðila í desember.

Reglugerð um almennan stuðning við landbúnað nr. 1260/2018

Reglugerð um stuðning við nautgriparækt nr. 1261/2018 

Reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1262/2018

Reglugerð um stuðning við garðyrkju nr. 1263/2018