15. apríl 2014

Nýir formenn hjá Búvest og BSSL

Þessa dagana standa yfir aðalfundir nokkurra aðildarfélaga BÍ. Nokkur mannaskipti urðu í stjórnum Búnaðarsamtaka Vesturlands og Búnaðarsambands Suðurlands í liðinni viku.

Nýr formaður var kosinn á aðalfundi Búnaðarsamtaka Vesturlands sem haldinn var fimmtudaginn 10. apríl síðastliðinn. Þórhildur Þorsteinsdóttir á Brekku var þá kjörin formaður í stað Guðnýjar H. Jakobsdóttur í Syðri-Knarrartungu en hún lét af embætti eftir níu ára stjórnarsetu. Halldór J. Gunnlaugsson á Hundastapa kom nýr inn í stjórn en áfram sitja þeir Daníel Ottesen á Ytra Hólmi, Valberg Sigfússon á Stóra-Vatnshorni og Kristján Magnússon í stjórninni.

Á fundinum kom fram að rekstur samtakanna var jákvæður um 1,5 milljónir á síðasta ári. Velta samtakanna á var 99 milljónir á árinu. Næg verkefni eru fram undan í starfi samtakanna, meðal annars vinnuverndarverkefni sem er á döfinni. Þá voru samþykktar ályktanir, meðal annars varðandi uppbyggingu og lagfæringu malarvega á starfssvæði Búvest, um að selja skuli Hótel Sögu og um stuðning við málflutning Bændasamtaka Íslands varðandi sjálfstæði Landbúnaðarháskólans.

Hjá Búnaðarsambandi Suðurlands var kjörin ný stjórn á aðalfundi 1. apríl síðastliðinn. Guðbjörg Jónsdóttir á Læk gaf ekki kost á sér til endurkjörs en hún hafði setið sem formaður síðustu sex ár. Ragnar Lárusson í Stóra-Dal var kosinn formaður og nýr maður í stjórn er Baldur Indriði Sveinsson frá Litla-Ármóti. Aðrir í stjórn eru þeir Gunnar Kristinn Eiríksson í Túnsbergi, Jón Jónsson, Prestbakka og Erlendur Ingvarsson í Skarði.