13. september 2013

Matreiðslumeistari hittir bændur

Bændur og martreiðslumenn hafa leitt saman hesta sína undanfarnar vikur í samstarfi Bændablaðsins og veitingastaðarins Grillsins á Hótel Sögu. Í blaðinu hafa birst ljósmyndir og fróðleikur um hráefnið auk uppskrifta. Sigurður Helgason, yfirmatreiðslumaður á Grillinu, fer í heimsókn í sveitina og ræðir við sína birgja. Hvað er það sem kokkurinn og bóndinn tala um þegar búvörur eru annars vegar? Þorsteinn J. Vilhjálmsson sjónvarpsmaður hefur fest heimsóknirnar á filmu og stutt myndskeið fara um Facebook eins og eldur í sinu.

Grillið hefur keypt kryddjurtir og annað grænmeti frá lífrænt vottaða býlinu Engi í Laugarási frá því á níunda áratugnum og er einn elsti viðskiptavinur bændanna. Í Silfurtúni við Flúðir eru ræktuð jarðarber í tonnatali en meðal þess sem Grillið fær þaðan eru græn jarðarber.

Myndband af heimsókninni til grænmetisbændanna er hér undir en fleiri myndbönd má sjá á Facebooksíðu Grillsins.Umfjöllun um heimsóknina í Engi og Silfurtún var í 16. tbl. Bændablaðsins á bls. 20. Sjá hér.