29. júní 2015

Málstofa með Piero Sardo frá Slow Food

Piero Sardo, framkvæmdastjóri stofnunar líffræðilegs fjölbreytileika hjá Slow Food kemur til landsins dagana 7. – 11. júlí. Af því tilefni efna Bændasamtökin til málstofu undir yfirskriftinni "Að varðveita líffræðilega fjölbreytni" fimmtudagsmorguninn 9. júlí frá klukkan 9-11 í Esju II á Hótel Sögu.

Piero er einn af áhrifamestu mönnum í heiminum þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika í verki. Stofnunin sem hann vinnur hjá sér um öll verkfæri sem Slow Food deildir um heim allan geta notað til að varðveita fjölbreytileika í matvælaframleiðslu í gegnum smáframleiðendur. Meðal þeirra verkfæra eru Bragðörkin, sem skráir afurðir eða húsdýrakyn sem eru í útrýmingarhættu og telur 2500 skráningar, þar af 12 á Íslandi (sem er met á Norðurlöndunum) og Presidia skráir þær afurðir sem eru lífvænlegar á markaði. Hér á landi hefur íslenska geitin verið tilnefnd og búið er að samþykkja inn ásamt hefðbundnu íslensku skyri. Piero kemur hingað til lands til að staðfesta þessar skráningar í Presidia sem tengist verndun vöruheita.

Í lok erindisins verður opnað fyrir spurningar og umræður til Piero Sardo en ásamt því verða léttar veitingar í boði.