23. október 2014

Innflutningsbann á hráu kjöti er í þágu íslenskra hagsmuna


Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, ritar eftirfarandi grein í Morgunblaðið í dag sem svar við grein Andrésar Magnússonar og Lárusar M.K. Ólafssonar sem birtist í sama blaði þann 13. október síðastliðinn.


 


Andrés Magnússon og Lárus M.K. Ólafsson ríða fram á ritvöllinn í Morgunblaðinu þann 13. október með grein sem ber fyrirsögnina „Til varnar íslenska gælusvíninu“.


 


Samtök verslunar og þjónustu sem þeir félagar starfa fyrir kærðu bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti til ESA í árslok 2011. Síðan þá hafa íslensk stjórnvöld svarað bréfum ESA og spurningum. Hinn 30. október 2013 sendi ESA frá sér rökstutt álit en Íslandi gafst jafnframt tækifæri til að senda frá sér enn frekari rökstuðning. Þessum rökum hafnar ESA nú með því að senda formlega tilkynningu.

 


Mikil vinna hefur verið lögð í svör íslenskra stjórnvalda en þeir félagar nefna aðeins eitt af þeim gögnum sem lögð voru fram í röksemdarfærslunni. Það er áhættumat sem Steven Cobb sérfræðingur frá Nýja Sjálandi vann, til að meta áhættuna af að tilteknir dýrasjúkdómar sem allir eru á lista Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar, geti borist hingað til lands með hráu kjöti.

 


Hér er um alvarlegan misskilning að ræða. Hér er það auðvitað smitleiðin sem er til umfjöllunar. Andrés og Lárus telja að niðurstaða Cobb þýði að áhættan af innflutningi á hráu kjöti sé eingöngu bundin við það að sjúkdómar geti borist í gælusvín og gæluhænsni. Mörg dæmi eru um að alvarlegir sjúkdómar hafa borist í búfé með geigvænlegum afleiðingum vegna þess að dýr komust í matarleifar. Þéttbýlisbúar halda til dæmis hænsni sér til gamans í hesthúsahverfum og þeim fer fjölgandi sem halda eitt til tvö svín. Þar var líka niðurstaða Cobb að þarna væru smitleiðir fyrir hættulega sjúkdóma úr matvælum í búfé. Það sem er umdeilt er hve mikil áhættan þarf að vera til að réttlæta áður nefndar takmarkanir gagnvart kjötinnflutningi.  Mikilvægt er að hafa í huga að það eru ekki einungis viðskiptalegir hagsmunir sem hér koma til álita, margt fleira skiptir máli svo sem dýravelferð og útbreiðsla smitefna.

 


Vottorð og skírteini eru engin trygging fyrir að þetta geti ekki gerst. Nýlegt dæmi er að finna því til sönnunar frá ESB. Þann 10. október síðastliðinn birtist frétt í hollenskum fjölmiðlum um að fargað hefði verið sjö tonnum af nautakjöti frá Slóvakíu vegna gruns um að það bæri með sér miltisbrand. Kjöt af sama uppruna mun einnig hafa borist til Svíþjóðar. Miltisbrandur hafði verið greindur í tveimur kúm hjá bónda sem seldi afurðir til sláturhússins sem kjötið kom frá. Hér var semsé um að ræða þrælvottað kjöt sem var framleitt undir "ströngu eftirliti systurstofnana Matvælastofnunar í Evrópu" svo notað sé orðrétt orðalag Andrésar Magnússonar og Lárusar M.K. Ólafssonar.

 


Athyglinni hefur einkum verið beint að hættulegum sjúkdómum sem eru á lista OIE, Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar. Nokkrir þeirra geta borist með hráum dýraafurðum og smitað dýr. Sjúkdómastaða íslensks búfjár er samt algerlega einstök og er þá vart ofmælt. Margra alda einangrun þess hefur haldið því frá að komast í tæri við margvísleg smitefni sem  eru landlæg í öðrum löndum og sýna jafnvel ekki einkenni í búfé þar. Þetta sýndi sig vel þegar hrossapestin kom upp hér snemma árs 2010. Um var að ræða sjúkdóm sem sýndi væg eða lítil sem engin einkenni annarsstaðar en olli stórtjóni hér á landi. Verslun með hross hrapaði og Landsmót hestamanna var fellt niður. Kostnaður hrossaeigenda og tap vegna tapaðra viðskipta var gríðarlegt. Mörg fleiri dæmi er hægt að tína til frá fyrri tíð um alvarlegar afleiðingar búfjársjúkdóma. Afleiðingar innflutnings á Karakúl-fé á sínum tíma er mörgum þar enn í fersku minni. Fjölda sauðfjár var lógað með tilheyrandi kostnaði fyrir bændur og samfélagið.

 


Það er ekki hægt að slá fram þeirri einföldun að íslenskt búfé muni einfaldlega aðlagast nýjum framandi smitefnum eins og búfé í öðrum löndum. Auknu smitálagi myndi einnig fylgja aukinn kostnaður við bólusetningar þar sem þeim er við komið, auk annars kostnaðar við læknismeðferð, aukna vinnu bænda og afurðatap svo nokkuð sé nefnt.

 


Heilbrigði íslensks búfjár er líka verðmæti fyrir alþjóðasamfélagið. Blóðsýni úr því eru til dæmis notuð í rannsóknarskyni víða utan Íslands þar sem það hefur einstaka eiginleika í samanburðarrannsóknum, því miklu minna er um mótefni gegn smitefnum í því en í búfé annarsstaðar í heiminum.

 


Búfjársjúkdómar eru alvarleg viðfangsefni, þeir valda dýrunum sem fyrir þeim verða, þjáningum, eigendum þeirra kvöl og fjárhagslegum byrðum og samfélaginu gríðarlegum kostnaði. Íslenskum stjórnvöldum ber að halda óhikað uppi vörnum í þessu máli. EFTA dómstóllinn hefur áður komist að annarri niðurstöðu en ESA og því engin ástæða til að láta hér staðar numið. Raunverulegir hagsmunir eru í húfi.

 

Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands