26. mars 2014

Greiðsluyfirlit birt á Bændatorgi

Bændasamtök Íslands hafa á undanförnum árum byggt upp Bændatorgið, sem er gagnvirk upplýsingagátt fyrir bændur. Á Bændatorginu er aðgangur að rafrænum skjölum; skjölum í skjalakerfi, greiðslum, skattyfirliti, sláturgögnum frá afurðastöðvum og bréfum.

Unnið er að því að koma öllum útsendum reikningum á rafrænt form og munu þá allir reikningar birtast undir "rafrænum skjölum" í heimabanka og jafnframt birtist greiðsluseðill í yfirliti yfir ógreiddar kröfur í heimabanka eins og verið hefur.

Yfirlit yfir greiðslur til bænda samkvæmt búvörusamningum og búnaðarlagasamningi er að hluta komin inn í Bændatorgið úr greiðslukerfi landbúnaðarins, AFURÐ. 

Á árinu verður unnið að því að koma öllum greiðslum til bænda inn í Bændatorgið þannig að bændur hafi aðgang að þeim á einum stað - Bændatorginu.

Bændasamtök Íslands hafa nú ákveðið að hætta að senda út reikninga/ greiðsluseðla, yfirlit og tilkynningar á pappírsformi þar sem því verður við komið. Með þessu er ætlunin að draga verulega úr pappírsnotkun og kostnaði við burðargjöld. Það er litið á þetta sem aukna þjónustu við umbjóðendur Bændasamtakanna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að Íslandspóstur hefur verið að draga úr þjónustu við landsbyggðina hvað varðar heimkeyrslu á pósti.

Þeim sem kjósa að fá áfram send yfirlit í pósti verður boðið upp á að velja um það í Bændatorginu. Unnið er að því að útfæra það.