04. desember 2013

Fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk á næsta ári

Ákveðið hefur verið að auka greiðslumark mjólkur um sjö milljón lítra á komandi verðlagsári. Greiðslumarkið verður 123 milljónir lítra en er á þessu ári 116 milljónir lítrar. Þrátt fyrir þessa hækkun hefur stjórn Auðhumlu þegar gefið út að greitt verði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla umframmjólk á næsta ári. Er það gert vegna mikillar sölu undanfarið sem hefur valdið því að birgðastaða Mjólkursamsölunnar er í lágmarki. Allt bendir til að sama þróun muni verða á næsta ári.

Reglugerð um greiðslumark mjólkur var gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á 22. nóvember síðastliðinn. Auk aukningarinnar sem grein er gerð fyrir hér að framan, er sú breyting gerð á að nú þarf hvert lögbýli að framleiða að lágmarki 95% af greiðslumarki til að fá fullar A-greiðslur. A-greiðslu eru greiðslur óháðar framleiðslumagni og nema 47,67% af beingreiðslum. Áður var þetta hlutfall 90%. Innbyrðisskipting A-, B- og C-greiðslna er óbreytt frá því sem verið hefur, sem og mánaðarleg skipting C-greiðslna. B-greiðslur, sem nema 35,45% af beingreiðslum, eru framleiðslutengdar greiðslur sem greiddar eru eftir hvern mánuð. C-greiðslur, sem nema 16,88% af beingreiðslum, er ráðstafað til greiðslumarkshafa vegna framleiðslu innan greiðslumarks í ákveðnum mánuðum. Hlutfall þeirra er eftirfarandi:

júlí 10%
ágúst 15%
september 15%
október 20%
nóvember 20%
desember 20%

/bbl.is greindi frá