30. janúar 2014

Flutningur verkefna frá BÍ í undirbúningi

Um næstu mánaðamót verða breytingar á starfaskipan hjá BÍ í tengslum við flutning samningsbundinna verkefna frá samtökunum til ríkisvaldsins. Frá og með 1. febrúar 2014 til og með 31. desember 2014 tekur Jón Baldur Lorange, forstöðumaður tölvudeildar BÍ, að sér að verkstýra undirbúningi flutnings verkefna frá BÍ til stofnana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR). Það verður gert samkvæmt samkomulagi sem BÍ og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerðu sín á milli í lok síðasta árs. Meðal verkefna sem um ræðir eru útgreiðslur beingreiðslna til bænda. 

Í samkomulagi BÍ og ANR segir meðal annars: „Aðilar skulu meðal annars stefna að því að fyrir 15. maí 2014 verði tilbúið yfirlit yfir verkefnin sem um ræðir. Þá skulu aðilar stefna að því að fyrir 15. ágúst 2014 verði vinnu við lagafrumvarp og drög að breytingum á viðeigandi samningum tilbúin. Aðilar skulu á samningstímanum meðal annars fjalla um starfsmannamál, flutning gagnagrunna og hugbúnað[ar], viðhald á honum til framtíðar og kostnað sem kann að fylgja flutningnum.“

Í starfi Jóns Baldurs sem verkefnisstjóra verður ennfremur horft til fleiri þátta í starfsemi BÍ sem til álita getur komið að fella að þessu verkefni og gera tillögur þar um. Um er að ræða tímabundið verkefni en nýtt fyrirkomulag mun taka gildi frá og með 1. janúar 2015.

Þorberg Þ. Þorbergsson, sem unnið hefur sem forritari í tölvudeild BÍ um árabil með aðsetur á Akureyri, hefur verið ráðinn sem staðgengill forstöðumanns tölvudeildar þann tíma sem Jón Baldur sinnir ofangreindu verkefni.