27. mars 2015

Fjárvís III tekur við af Fjárvís II

Í morgun var FJARVIS.IS, eða Fjárvís II, lokað, en hann tók við af Fjárvís I (Dos útgáfu). Þá hófst gagnaflutningur yfir í Fjárvís III, sem er ný kynslóð af skýrsluhaldsforriti í sauðfjárrækt. Það er að því að opna nýtt kerfi 31. mars 2015. Um er að ræða tölvukerfið sem hafði vinnuheitið LAMB, en ákveðið var að halda Fjárvís heitinu, sem hefur fylgt sauðfjárræktinni frá því árið 1993/94, þegar tölvuforritið Fjárvís I var opnað. 
 
Vonum við að skýrsluhaldarar í sauðfjárrækt sýni því skilning að vanda þarf vel til verka við að flytja gögn yfir í nýjan gagnagrunn til að tryggja að gögn komist rétt yfir. Hluti af þróun á nýju kerfi hefur verið að hanna og smíða nýjan gagnagrunn fyrir skýrsluhaldið í sauðfjárrækt. 
 
Í kvöld mun Eyjólfur Ingvi Bjarnason, sauðfjárræktarráðunautur, kynna nýja sauðfjárkerfið á ráðstefnu í tengslum við aðalfund sauðfjárbænda, sem nú stendur yfir í Bændahöllinni. Tölvudeild Bændasamtaka Íslands samdi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins að sjá um innleiðingu á nýju kerfi meðal sauðfjárbænda og leiðir Eyjólfur Ingvi þá vinnu fyrir hönd Bændasamtakanna.