27. mars 2019

Breytingar á félagsgjöldum BÍ

Á nýafstöðnum ársfundi Bænda­samtakanna var samþykkt að hækka árleg félagsgjöld. Félagsgjaldið er nýtt til þess að gæta hagsmuna bænda og reka Bændasamtökin en félagsmenn þeirra eru rúmlega 3.140 talsins. Á ársfundinum kom fram að fjölga þyrfti félagsmönnum til þess að treysta betur rekstur samtakanna.
 
Grunngjald fyrir A-aðild að samtökunum hækkar úr 47.000 krónum í 54.000 krónur. A-aðild fylgja full félagsleg réttindi fyrir tvo einstaklinga sem standa saman að búrekstri. Hækkunin nemur 14,8% en 2.000 krónur af gjaldinu renna í Velferðarsjóð BÍ. 
 
B-aðild, fyrir einstaklinga sem standa að búi umfram tvo, verður 15.000 kr. á ári. Félagsmenn með C-aðild, þ.e. þeir sem standa fyrir rekstri sem telst minni háttar og með veltu undir 1,5 milljónum á ári, greiða 17.000 krónur á ári. Þar af renna 2.000 krónur í Velferðarsjóð. Aukaaðild að BÍ, fyrir þá sem styðja markmið samtakanna, verður 15.000 krónur árið 2019. 
 
Margvísleg réttindi
 
Með aðild njóta félagsmenn ýmissa réttinda, s.s. afslátta af tölvuforritum, leigu á orlofsíbúð, sérkjara á gistingu á Hótel Sögu, stuðnings Velferðarsjóðs og ráðgjafar um ýmis málefni sem snerta bændur. Þá er ótalið þeir hagsmunir sem felast í samtakamætti heildarinnar, s.s. við hagsmunagæslu og ímyndar- og kynningarmál.
 
Full aðild að BÍ veitir félagsmönnum rétt til að gegna trúnaðarstörfum og njóta kjörgengis til kosninga um þá samninga sem gerðir eru í nafni Bændasamtakanna þegar það á við. Einungis þeir sem greitt hafa félagsgjöld njóta réttinda sem félagsmenn í Bændasamtökum Íslands.
 
Greiðsluseðlar fyrir félagsgjöldum eru sendir út í mars á hverju ári. Hægt er að gerast félagi í BÍ með því að skrá sig hér á vefsíðu samtakanna.