04. október 2018

Bændur krefjast nánari skýringa um breytingar í ráðuneyti landbúnaðarmála

Í síðustu viku bárust fregnir af því að hætt hafi verið við ráðningu skrifstofustjóra á skrifstofu matvæla og landbúnaðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Sameina ætti skrifstofuna, sem er ein þriggja fagskrifstofa sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undir skrifstofu alþjóðamála. Á 26 manns sóttu um starfið í sumar en matsnefnd hefur verið að störfum síðustu vikur. Samkvæmt heimildum Bændablaðsins var búið að taka nokkra umsækjendur í viðtal og sérstök hæfnisnefnd búin að skila ráðherra greinargerð.
 
Í bréfi til umsækjenda, sem dagsett var 27. september, segir að eftir að ráðningarferlið hófst hafi skipulagsbreytingar verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Markmiðið sé að „efla stjórnun og samhæfingu, jafna álag og bæta nýtingu starfsfólks,“ eins og segir í bréfinu.
 
Það kom einnig fram að ákveðið hefði verið að sameina skrifstofu matvæla og landbúnaðar og skrifstofu alþjóðamála undir skrifstofustjóra þeirrar síðarnefndu. Jafnframt hafi verið ákveðið að ráðast í vinnu við frekari skipulagsbreytingar á næstunni. Ekkert er hins vegar að finna um skipulagsbreytingarnar eða annað tengt málinu á vef ráðuneytisins.
 
Verður landbúnaðinum komið fyrir í skúffu á alþjóðasviði ráðuneytisins?
 
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði í frétt á bbl.is að málið væri veruleg vonbrigði og hann hafi miklar áhyggjur af stöðu mála í ráðuneytinu. „Nú nýlega hættu tveir reynslumiklir starfsmenn ráðuneytisins á sviði landbúnaðar og það er alveg ljóst að stjórnsýsla landbúnaðarmála stendur veikari á eftir. Við finnum það sem erum í reglulegum samskiptum við ráðuneytið að þar eru alltof fáir starfsmenn. Það er slæmt fyrir hagsmuni landbúnaðarins.“ Aðspurður um sameiningu skrifstofu matvæla og landbúnaðar við skrifstofu alþjóðamála segir Sindri það hljóma undarlega og að ráðherra verði að tala skýrar um framtíðarhlutverk og fyrirkomulag í ráðuneytinu. „Það sýnir kannski forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að hún vill koma landbúnaðinum fyrir í skúffu á alþjóðasviði sjálfs atvinnuvegaráðuneytisins.“
 
Hvar er hinn öflugi fyrirliði landbúnaðar og matvæla í ráðuneytinu?

Í Bændablaðinu sem kom út 4. okt. vék Sindri aftur að málefnum ráðuneytisins og sagði: „Það er mikil reglusetning um landbúnaðinn.  Það gilda margar og strangar reglur um framleiðsluna. Við viljum ekki neinn afslátt af því en það þýðir líka að það þarf að standa vel að stjórnsýslunni og öðru utanumhaldi. Það þarf að vera hægt að taka á málum fljótt og örugglega.

Lengi var það þannig að sérstakt ráðuneyti fór með landbúnaðarmál. Því var svo slegið saman í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og svo aftur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þó að því sé nú stýrt af tveimur ráðherrum. Við þetta voru og eru margir ósáttir í landbúnaðinum. Það var þó þannig að einni skrifstofu í því ráðuneyti var ætlað að sinna málefnum landbúnaðar og matvæla.

Nú í lok september bárust fregnir um að þessari einu skrifstofu ætti á slá saman við aðra. Þetta hafði ekki verið kynnt með neinum hætti og kom upp þegar ráðning nýs „öflugs fyrirliða á sviði matvæla og landbúnaðar“ (eins og ráðuneytið auglýsti sjálft) átti að vera að ljúka. Ráðherra hefur ekki séð sér fært að kynna bændum rök sín fyrir þessum breytingum. Honum þarf ekki að koma á óvart að þeim þyki þetta lýsa litlum áhuga á að efla íslenskan landbúnað nema að hann sýni fram á annað með afgerandi hætti.“

Stjórn Sambands garðyrkjubænda sendi á dögunum áskorun til þingmanna, ráðherra og landshlutasamtaka sveitarfélaga þar sem viðkomandi eru hvattir til að standa vörð um stjórnsýslu íslensks landbúnaðar.