14. september 2016

Búvörusamningar afgreiddir á Alþingi

Alþingi hefur samþykkt frumvarp um breytingar á búvörulögum er varða búvörusaminga. Athygli vakti að einungis 19 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en sjö voru á móti. Aðrir sátu hjá. 21 þingmaður tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni, þar af 14 stjórnarliðar.

Í grundvallaratriðum felast breytingarnar, frá samningi ríkis og bænda 19. febrúar síðastliðinn, í því að einungis fyrstu þrjú ár samningsins er staðfest, en svo er lagt upp með að framtíðarsýn til tíu ára sé mótuð. Samráðsvettvangur verður myndaður milli stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um mótun landbúnaðarstefnunnar.

Í samþykktum samningum er fyrirhuguðum breytingum á verðlagningu á mjólk frestað og verðlagsnefnd starfar því áfram með sama hætti og verið hefur. Ekki verður hróflað við greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslu að sinni. Þá er Mjólkursamsölunni gert skylt að selja öðrum vinnsluaðilum allt að 20 prósent af innlagðri mjólk hverju sinni á heildsöluverði.

Í bréfi sem Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, sendi til aðildarfélaga BÍ og búnaðarþingsfulltrúa kom fram að hann fagnaði afgreiðslu málsins sem nú sé lokið eftir þinglega meðferð í tæpt hálft ár, að undangengnum samningaviðræðum í svipað langan tíma. Hann sagði málið hafa verið í óvissu og henni væri nú eytt. Í kjölfarið tæki við undirbúningur fyrir gildistöku og vinna við útfærslu einstakra verkefna.