22. júní 2014

BÍ leggja til við FEIF að þau banni notkun á ákveðnum mélum með tunguboga


Vegna umræðu um rannsókn á áverkum í munni hrossa óskuðu Bændasamtök Íslands eftir afstöðu Fagráðs í hrossarækt á mögulegu notkunarbanni á mélum með tunguboga. Fagráðið hefur þann tilgang að móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi búgreinarinnar, skilgreina ræktunarmarkmið og setja reglur um framkvæmd meginþátta ræktunarstarfsins.

Fagráð í hrossarækt fundaði 16. júní sl. og tók afstöðu til málsins. Í niðurstöðu þess er því beint til kynbótanefndar FEIF að banna einjárnung með tunguboga og vogarafli og einbrotnum mélum með tunguboga og vogarafli. Það hafi komið í ljós í rannsókn Sigríðar Björnsdóttur, dýralæknis hrossasjúkdóma, að þessi mél auka líkur á áverkum í munni og hafa niðurstöður þeirrar rannsóknar hlotið samþykki í ritrýndu vísindatímariti. Fagráðið leggur til að áhrif þessara méla og annarra gerða méla með tunguboga verði skoðuð í ljósi frekari gagna sem safnast munu í sumar og ákvarðanir um frekari viðbrögð teknar í ljósi þeirra.

Niðurstaða Fagráðs í hrossarækt var rædd á stjórnarfundi Bændasamtaka Íslands þann 18. júní. Þar var tekið undir afstöðu fagráðsins.

Alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins, FEIF, hafa að svo stöddu ekki stutt bann við notkun á mélum með tunguboga. Formanni FEIF var sent bréf frá Bændasamtökum Íslands 20. júní sl. þar sem óskað er eftir því að niðurstaða Bændasamtakanna verði tekin til umfjöllunar í kynbótanefnd FEIF.