04. ágúst 2015

Bændasamtökin og opinberir styrkir

Forstjóri Haga, Finnur Árnason, heldur því fram í blaðagrein í Fréttablaðinu þann 4. ágúst að Bændasamtökin fái 500 milljónir króna í opinbera styrki til hagsmunabaráttu. Það er rangt.

Í fjárlögum 2015 er liður sem heitir „Búnaðarlagasamningur“. Fjármunirnir sem þarna um ræðir renna meðal annars til ráðgjafarstarfs í landbúnaði, jarðabóta í sveitum, til Framleiðnisjóðs (sem er þróunar- og nýsköpunarsjóður landbúnaðarins) búfjárræktarstarfs og fleira sem er óskylt rekstri hagsmunabaráttu bænda.

Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Verkefni í gegnum búnaðarlagasamning eru lögbundin en samninginn má lesa í heild sinni hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hagsmunabarátta samtaka bænda er rekin fyrir tekjur af búnaðargjaldi sem bændur greiða sjálfir.