16. mars 2015

Bændablaðið 20 ára í eigu Bændasamtakanna

Á dögunum varð Bændablaðið 20 ára í eigu Bændasamtakanna en það kom fyrst út undir merkjum nýstofnaðra Bændasamtaka Íslands þann 14. mars árið 1995. Frá þessum tíma eru komin út 438 tölublöð af Bændablaðinu og af þessu tilefni var í fyrsta sinn gefið út Tímarit Bændablaðsins við setningu Búnaðarþings þann 1. mars síðastliðinn.

Bændablaðið á sér lengri forsögu því árið 1987 komu Bjarni Harðarson og nokkrir bændasynir á mölinni sér saman um að stofan blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Blaðið var nefnt Bændablaðið sem kom út í tæplega átta ár og skapaði um 2-3 störf á ristjórninni þegar best var. Fyrst var það til húsa á Skúlagötu í Reykjavík en flutti síðar austur að bænum Einarshöfn á Eyrarbakka. Síðasta árið var blaðið gefið út af Jóni Daníelssyni á Tannstöðum í Hrútafirði sem seldi Bændasamtökum Íslands nafnið í árslok 1994.

Margvísleg þróun hefur átt sér stað á þessum 20 árum sem blaðið hefur verið í eigu Bændasamtakanna. Þannig var sumarhlé aflagt árið 2013 og koma nú út 24. tölublöð á ári, árið 2007 fór vefur blaðsins, bbl.is, í loftið og í dag kemur blaðið út í 32 þúsund eintökum og mælist þriðja mest lesna dagblað landsins samkvæmt nýjustu lestrarkönnun Capacent.

Bændablaðið hefur því vaxið og dafnað vel síðustu áratugi og mun halda áfram að upplýsa landsmenn um mikilvægi landbúnaðar fyrir land og þjóð.