17. janúar 2019

Atkvæðagreiðslur meðal bænda

Í kjölfar endurskoðunar sauðfjársamnings og ákvæðis í búvörusamningum um kosningu meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu munu Bændasamtök Íslands boða til tveggja atkvæðagreiðslna meðal bænda á næstu vikum. Nákvæmar dagsetningar liggja ekki fyrir enn sem komið er.
 
Sauðfjársamningur
 
Í auglýsingu sem birt er í Bændablaðinu 17. janúar á blaðsíðu 45 segir um atkvæðagreiðslu um sauðfjársamning að hún fari fram með rafrænum hætti í febrúar og /eða í mars næstkomandi. Boðað verður til atkvæðagreiðslunnar með formlegum hætti með auglýsingu í Bændablaðinu sem kemur út þann 14. febrúar nk. Þá verða allar upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar kynntar. Kosningarétt hafa einstaklingar sem eru félagsmenn í Bændasamtökunum og/eða Landssamtökum sauð­fjárbænda og eru jafnframt með virkt bú í skýrsluhaldi BÍ. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar verða haldnir kynningarfundir sem auglýstir verða síðar. Samningurinn sjálfur er aðgengilegur á vef BÍ, bondi.is og LS, saudfe.is, ásamt kynningarmyndbandi þar sem farið er yfir helstu atriði.
 
Kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
 
Í samningi um starfskilyrði nautgriparæktarinnar sem undirritaður var árið 2016 var kveðið á um að atkvæðagreiðsla skyldi fara fram meðal mjólkurframleiðenda við endurskoðun samningsins árið 2019 um það hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021.
Atkvæðagreiðslan mun fara fram með rafrænum hætti og áformað er að hún fari fram í febrúar. Kosningarétt hafa allir mjólkurframleiðendur án tillits til félagsaðildar. Hver innleggjandi hefur eitt atkvæði og kosningarétt hafa jafnt lögaðilar og einstaklingar. Framkvæmd kosningarinnar, reglur og annað sem snýr að atkvæðagreiðslunni verður kynnt nánar þegar nær dregur. Boðað verður til atkvæðagreiðslunnar með formlegum hætti í Bændablaðinu 31. janúar næstkomandi.