12. september 2014

Af högum bænda

Forsvarsmenn verslunarinnar hafa ekki dregið af sér á undanförnum misserum að gagnrýna fyrirkomulag í landbúnaði. Draumur þeirra um að geta takmarkalaust flutt inn búvörur frá útlöndum og ávaxtað sitt pund betur en þeir gera í dag er lífseigur.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, gerði landbúnað að umtalsefni í fjölmiðlum nýlega og fann honum flest til foráttu. Svo mátti skilja á máli forstjórans að landbúnaðarkerfið sé úr sér gengið og engum til hagsbóta, ekki bændum, ekki neytendum og allra síst versluninni í landinu. Finnur kom víða við í gagnrýni sinni og gekk svo langt að álykta sem svo að landbúnaðarkerfið væri einn af þeim þáttum sem hömluðu erlendum verslunum í að koma hingað til lands. Það er langt seilst í rökfærslunni.

Hvaða áhrif hefur aukinn innflutningur á búvörum?
Forstjóri Haga óskar sér að geta flutt inn meira af erlendum búvörum á lægri tollum. Hvaða áhrif hefur það á innlendan landbúnað? Þegar ódýrar vörur eru fluttar inn til landsins er minna keypt af innlendri framleiðslu. Bændum myndi fækka hratt og afurðastöðvar þeirra lognast út af. Það hefði slæmar afleiðingar fyrir byggð í landinu og aukið atvinnuleysi á landsbyggðinni þar sem íbúar treysta á landbúnaðinn.

Ofurhagnaður verslunarinnar
En af hverju kveinkar forstjóri eins stærsta smásölufyrirtækis á Íslandi sér undan rekstrarumhverfinu? Verslanir hans skila milljarðahagnaði á ári og ekki er að sjá að stjórnendur fyrirtækisins séu illa haldnir í launum. Nýlega var skýrt frá því að Hagar hefðu hagnast um 939 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Heildarhagnaður fyrirtækisins á síðasta ári var rúmir 3,9 milljarðar. Raunar viðurkennir Finnur að dagvöruhluti verslunarinnar, þar sem m.a. íslenskar búvörur eru á boðstólum, skili dágóðum hagnaði. Samkvæmt rannsóknum verslunarinnar sjálfrar er veltan 7% meiri í dag en fyrir Hrun. Þetta eru vissulega betri afkomutölur en við bændur getum státað af.

Kjöt hefur hækkað minna í verði en aðrar vörur
Forstjórinn heldur því fram að vegna mjólkurskorts hafi nautakjöt hækkað í verði frá framleiðendum um rúmlega 20% á síðustu 12 mánuðum. Það er auðvelt að skella fram ólíkum tölum og draga margvíslegar ályktanir. Það er líka hægt að nefna að frá bankahruninu hefur nautakjöt hækkað í verði um 40% á meðan verð á brauði og kökum hefur hækkað um 74%. Á tímabilinu hækkaði vísitala neysluverðs um 47%. Staðreyndin er sú að íslenskar búvörur hafa haldið aftur af hækkun vísitölu neysluverðs því þær hafa hækkað minna í verði en innfluttar vörur.

Verslunin kostar sitt
Forsvarsmenn bænda hafa á liðnum árum nálgast umræðu um starfshætti verslunarinnar af virðingu og yfirvegun. Það má hins vegar rifja það upp, og það er óskemmtilegt, að verslunin í landinu hefur kostað þjóðfélagið stjarnfræðilega háar upphæðir á liðnum árum. Eftir bankahrun voru til dæmis afskrifaðir hjá Arion-banka á milli 35-40 milljarðar króna hjá verslunarfyrirtækinu Högum hf. Sama fyrirtæki hefur verið staðið að alvarlegum brotum á samkeppnislögum og þurft að leggja út um 600 milljónir króna í sektargreiðslur á seinustu árum vegna þeirra brota. Þessar upphæðir greiða íslenskir neytendur á endanum. Margoft hefur verið fjallað um fermetrafjölda í íslenskum verslunum sem er meiri en í nágrannalöndum og kostnað við langan opnunartíma. Í ljósi þessa er hjákátlegt að heyra forystumann stærstu verslunarkeðju landsins kenna bændum um hátt vöruverð og hækkandi húsnæðislán landsmanna vegna vísitöluhækkana.

Verðmætasköpun í landbúnaði
Finnur reiknar út að verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði sé einungis 1.432 milljónir króna á ári. Samkvæmt þessum útreikningum eru Hagar rúma fjóra mánuði að skila þeim hagnaði sem allir bændur landsins skapa á hverjum einasta degi allt árið um kring. Hagstofa Íslands metur grunnframleiðsluverðmæti landbúnaðarins 51,6 milljarða árið 2013 án allra styrkja.
Verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði byggist á mörgum þáttum. Fyrir utan það að bændur nýta landsins gæði þá má horfa í þann sparnað sem það hefur í för með sér fyrir þjóðarbúið að eiga innlendan landbúnað. Við spörum gjaldeyri með því að framleiða eigin mat í stað þess að flytja hann inn frá útlöndum. Það er líka öryggi fólgið í því að eiga innlenda matvælaframleiðendur – það er eitthvað sem allar þjóðir leggja mikla áherslu á.

Enginn er gallalaus
Íslenskur landbúnaður er ekki gallalaus og það rekstrarumhverfi sem bændum er búið er það ekki heldur. Það eru margar ástæður fyrir því að framleiðsluaðstæður eru erfiðari á Íslandi en í nágrannalöndunum, m.a. óblíð veðrátta og hrjóstrugt land. Það er erfitt að búa með búfé þar sem náttúruöflin ráða för, eins og nýleg dæmi sanna. Landbúnað er ekki auðvelt að bera saman við aðrar atvinnugreinar, eins og sælgætisiðnað sem Finni er hugleikinn. Sá iðnaður byggir framleiðslu sína nær eingöngu á innfluttu hráefni, fer fram í lokuðu iðnaðarhúsnæði og treystir lítt á sól og regn.

Hvað vakir fyrir forstjóra Haga?
Er gagnrýni forstjórans sprottin af metnaði til að ná meiri völdum í smásöluversluninni og geta skapað fyrirtæki sínu enn meiri hagnað? Með því að kaupa erlendar búvörur og drepa niður innlenda framleiðslu er auðvelt fyrir verslunina að ráða ferðinni. Kaupmenn kaupa ódýrar vörur ytra og stjórna álagningunni að eigin geðþótta. Þannig getur verslunin grætt ennþá meira í dag en í gær. Eru það hagsmunir þjóðarinnar? Ekki að mati okkar bænda.

/Sindri Sigurgeirsson

Grein birt í Morgunblaðinu, laugardaginn 13. september 2014.