16. maí 2017

Aðgerða er þörf til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería

Starfshópurinn afhendir Óttari Proppé heilbrigðisráðherra greinargerð um aðgerðir til að sporna við sýklalyfjaónæmi. Mynd / Vefur velferðarrráðuneytis Starfshópurinn afhendir Óttari Proppé heilbrigðisráðherra greinargerð um aðgerðir til að sporna við sýklalyfjaónæmi. Mynd / Vefur velferðarrráðuneytis

Skýrsla starfshóps um tillögur um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi hefur verið birt á vef velferðarráðuneytisins. Niðurstöður hópsins voru kynntar á ráðstefnu Matvælastofnunar og Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um sýklalyfjaónæmi sem haldin var í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar mánudaginn 15. maí. 

Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Dauðsföllum af völdum fjölónæmra baktería fer fjölgandi. Áætlað er að sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería valdi nú þegar um 700.000 dauðsföllum í heiminum á hverju ári og að þeim fjölgi í allt að 10 milljónir á ári árið 2050 verði ekkert að gert.

Í skýrslu starfshópsins er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem stuðla að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og tilgreindar aðgerðir í tíu liðum sem hópurinn leggur til svo koma megi í veg fyrir frekari útbreiðslu þess.

Starfshópurinn leggur til að:
1. Stjórnvöld á Íslandi marki sér opinbera stefnu um málefni sem tengjast
ónæmi gegn sýklalyfjum og sníkjudýralyfjum.

2. Árlega verði gefin út skýrsla um sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun hér á
landi. 

3. Innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja hjá mönnum.

4. Innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja hjá dýrum.

5. Styrkt verði eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í dýrum og í
matvælaframleiðslu.

6. Styrkt verði eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum. 

7. Gerð verði heildstæð endurskoðun á notkun sníkjudýralyfja hér á landi.

8. Gerðar verði rannsóknir á tilvist sýklalyfjaónæmra baktería í umhverfi. 

9. Auknar verði skimanir fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum á
sjúkrastofnunum hjá skilgreindum áhættuhópum.

10. Unnið verði að því að minnka áhættu á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería
með ferðamönnum.

Starfshópurinn var skipaður af heilbrigðisráðherra og í honum áttu sæti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem var formaður hópsins, Sigurbjörg Daðadóttir yfirdýralæknir og Vala Friðriksdóttir deildarstjóri Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum.

Sjá skýrsluna: Greinargerð starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi