23. september 2013

Íslenskur landbúnaður og ný OECD-skýrsla

Í tilefni nýrrar skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) um landbúnað vilja Bændasamtök Íslands taka eftirfarandi fram:

Stuðningur við landbúnað hækkar í heild innan landa OECD, ekki bara á Íslandi, eftir óslitna lækkun í aldarfjórðung. Hækkun stuðnings á Íslandi frá árinu 2008 er innan við helmingur af hækkun verðlags á sama tíma. 40% af stuðningi við íslenskan landbúnað er reiknuð markaðsvernd en ekki útgjöld úr ríkissjóði.

Bændur hafa lagt sitt af mörkum eftir efnahagshrunið
Staðhæfingar í fjölmiðlum um að landbúnaðurinn og stofnanir hans hafi sloppið við niðurskurð í kjölfar efnahagshrunsins eru rangar. Síðla árs 2008 afnámu stjórnvöld einhliða vísitölutengingu búvörusamninga. Það hefur þýtt mörg hundruð milljóna króna tekjulækkun fyrir bændur. Ýmsar stofnanir landbúnaðarins fengu auk þess að kenna á niðurskurðarhnífnum. Meðal annars voru framlög til skógræktarverkefna lækkuð um 20% og Framleiðnisjóður landbúnaðarins skorinn niður um 90% þegar mest var.

Sparnaður ríkisins vegna niðurskurðar á búvörusamningum er um það bil 3,8 milljarðar á árunum 2009-2013 eða um 7%. Þetta eru samanteknar tölur á verðlagi ársins 2012. Framlög samkvæmt búnaðarlögum eru nú 420 milljónum króna lægri en þau voru árið 2008 (á verðlagi ársins 2013) sem er 43% niðurskurður. Að auki hætti ríkið nýlega að greiða mótframlag í Lífeyrissjóð bænda. Það þýðir um 300 milljóna króna kostnaðarhækkun hjá bændum í ár. Þessar greiðslur fengu bændur á sínum tíma með því að afsala sér afurðaverðshækkunum.

Útgjöld til landbúnaðarins eru 2,12% af heildarútgjöldum ríkisins
Útgjöld til landbúnaðar hafa farið lækkandi síðustu áratugi. Þau eru samsett úr beingreiðslum til bænda og framlögum til landgræðslu, skógræktar, Matvælastofnunar, ráðgjafar- og kynbótastarfs, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis o.fl. Árið 2011 voru útgjöld til landbúnaðar einungis 2,12% af heildarútgjöldum íslenska ríkisins.

Íslendingar verja aðeins 13% útgjalda sinna í matvörur en meðaltalið er 14% í ríkjum ESB. Innlendar búvörur hafa hækkað minna í verði en innfluttar matvörur frá hruni. Matvælaverð hérlendis er nú það lægsta á Norðurlöndum samkvæmt mælingum Eurostat frá því í fyrra. Það er á svipuðu róli og á Írlandi.

Bændur skorast ekki undan umræðum um breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins
Bændasamtökin hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að tryggja framleiðslu landbúnaðarvara hér á landi. Alþjóðastofnanir hafa varað við því ástandi sem gæti skapast fyrir þjóðir heims vegna aukinnar eftirspurnar eftir mat ef framleiðslan fylgir ekki eftir.

Það er mikilvægt að taka fram að bændur hafa aldrei skorast undan umfjöllun um málefni atvinnugreinarinnar. Þeir vilja gjarnan koma að borðinu með stjórnvöldum og ræða mögulegar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins sem geta orðið til góðs fyrir land og þjóð.

Skýrsla OECD: OECD Agricultural Policy: Monitoring and Evaluation 2013

Umfjöllun á vef OECD um helstu niðurstöður:
Support to agriculture rising after hitting historic lows, OECD says